Borgarrými og gildi fegurðarupplifunar

Föstudaginn 23. janúar klukkan 16,00 flytur Dr. Harpa Stefándsdóttir arkitekt FAÍ, fyrirlestur í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur undir yfirskriftinni Ánægjulegar samgönguhljólreiðar – borgarrými og gildi fegurðarupplifunar.

Fyrirlesturinn byggir á doktorsritgerð Hörpu en hún lauk í október síðastliðnum doktorsprófi í borgarskipulagi frá Norges miljø- og biovitenskapelige universitet (NMBU). Í rannsókn sinni greinir Harpa frá því  hvernig einkenni í borgarrýmum hafa áhrif á upplifun fólks sem hjólar í samgönguskyni og hvernig gildi fegurðar hefur áhrif á gæðamat fólks á hjólaleiðum þess.

Samanburðarrannsóknir voru unnar í þremur meðalstórum norrænum borgum, Reykjavík, Þrándheimi og Óðinsvéum. Doktorsritgerðin, “Pleasurable cycling to work – Urban spaces and the aesthetic experiences of commuting cyclist” er byggð á þremur greinum sem birtar hafa verið í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum. Harpa Stefánsddóttir útskrifaðist frá Arkitekt- og designhøgskolen i Oslo (AHO) árið 1993 og starfaði sem arkitekt í Reykjavík þar til hún réð sig sem styrkþega í skipulagsfræðum haustið 2010 við NMBU. Frá 2012 hefur Harpa einnig verið meðlimur í rannsóknarhópnum um sjálfbæra þróun í skipulagi borga á sömu deild. Hún mun starfa áfram við rannsóknir á þessu sviði við sama háskóla.

Arkitektafélag Íslands, Listaháskóli Íslands og Reykjavíkurborg standa sameiginlega að þessum viðburði.

Sjá tilkynningu hjá Arkitektafélagi Íslands: Dr Harpa Stefánsdóttir arkitekt FAÍ flytur fyrirlestur í Ráðhúsinu

Þess má geta að Harpa flutti erindið Áhrif umhverfisupplifunar á samgönguhjólreiðarfólk á hjólaráðstefnu LHM Hjólum til framtíðar 2012.