Gölluð gatnamót auka hættuna

mbl111114a

Nokkur gatnamót í Reykjavík og víðar á höfuðborgarsvæðinu eru óhentug og varasöm fyrir hjólreiðamenn en í mörgum tilvikum væri hægt að laga þau verulega, oft með litlum tilkostnaði. Gallana í hönnun þessara gatnamóta má oftar en ekki rekja til þess að þau voru gerð fyrir bíla og að hluta til fyrir gangandi vegfarendur. Ekkert virðist hafa verið hugsað um að einhverjum kynni að detta í hug að hjóla.

Það er á hinn bóginn upplífgandi fyrir hjólreiðamenn að vita af því að Reykjavíkurborg lét í fyrravetur útbúa leiðbeiningar um hvernig eigi að hanna umferðarmannvirki fyrir hjólandi umferð. Leiðbeiningarnar voru unnar í tengslum við hina metnaðarfullu hjólreiðaáætlun borgarinnar.

Þegar Morgunblaðið brá sér í stuttan hjólatúr með Sesselju Traustadóttur og Morten Lange, stjórnarmönnum í Landssamtökum hjólreiðamanna, gátu þau bent á nokkur dæmi um klúðursleg og varasöm gatnamót. Yfirleitt fór þetta tvennt saman.

Morten sagði að Reykjavíkurborg hefði tekið ágætlega í ábendingar og breytt ýmsu til batnaðar. „En okkur finnst þetta ganga allt of hægt.“

 

Eyjan flækist fyrir

Gatnamót Suðurlandsbrautar og Engjateigs eru dæmi um gatnamót sem þau Sesselja og Morten segja varasöm.

mbl111114a


Á þessum gatnamótum háttar svo til, og virðist sérkennilegt, að þrátt fyrir að Suðurlandsbraut sé stofnbraut en Engjateigur venjuleg húsagata er 50 km hámarkshraði á þeim báðum. Umferðarhraði á Suðurlandsbraut er þó stórum meiri en við Engjateig og þegar bílar beygja af Suðurlandsbraut eru þeir á töluverðum hraða. Augljóslega veldur hraðinn, einn og sér, hættu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur en hönnun gatnamótanna er einnig gölluð, a.m.k. fyrir hjólreiðamenn.

Sesselja vill að þessum gatnamótum verði breytt hið fyrsta. Taka ætti litla umferðareyju á miðjum gatnamótunum í burtu þannig að hægt sé að hjóla beint yfir en jafnframt hækka upp göngu- og hjólreiðastíginn þannig að ökumenn hægi örugglega á sér þegar þeir beygja. Til bráðabirgða gæti hugsanlega dugað að mála græna línu yfir gatnamótin, svipaða þeirri sem var sett á Hverfisgötu í tilraunaskyni í sumar.

mbl111114b

Þau Morten og Sesselja segja einnig að tvær afreinar af Kringlumýrarbraut, annars vegar yfir á Engjateig og hins vegar að bílastæði við Grand Hótel sem er við Sigtún vera sérlega varasamar. Að þeirra mati þurfi að forðast að hafa afreinar af stofnbrautum yfir á bílastæði, eins og þarna háttar og hafa þar að auki þveranir af stígum yfir götur nánast ósýnilegar. Vont sé að hjóla eftir Kringlumýrarbraut og því noti flestir stígana. „Mér finnst það deiliskipulagslegt slys þegar einkafyrirtæki fær heila afrein út af fyrir, með tilheyrandi hættu fyrir aðra umferð,“ segir Sesselja.

Líkt og við og við gatnamót Engjateigar og Suðurlandsbrautar telur Sesselja að það væri til bóta að mála græna línu yfir gatnamótin eða setja upphækkun. Morten bendir þá á að sumir hafi bent á að slíkt gæti skapað falska öryggiskennd hjá hjólreiðamönnum en Sesselja svarar með því að benda á að mikilvægasta verkefni hjólreiðamanna þessa stundina sé að auka sýnileika sinn, þ.e. að ökumenn átti sig á því að hjólreiðamenn séu hluti af umferðinni.

Önnur sérstaklega hættuleg gatnamót eða þveranir sem Landssamtök hjólreiðamanna hafa bent á eru t.d. við Kögun á Sævarhöfða, Olís við Sundagarða, frárein Höfðabakka til austurs á Bæjarháls, Sæbraut við Súðarvog og þverun Skeiðarvogs með stíg norðan við Suðurlandsbraut.

 

Ekki hættulegt að hjóla

Bæði Morten og Sesselja leggja mikla áherslu á að hjólreiðar séu ekki hættulegar. Hjólreiðamenn þurfi þó að fara varlega í umferðinni en ábyrgðin hvíli enn frekar á ökumönnum enda aki þeir um á kraftmiklum og þungum tækjum. „Ökukennarar gætu lagt sitt lóð á vogarskálarnar,“ segir Sesselja.

Morten bendir á að meðal þess sem hjólreiðamenn þurfi að hafa í huga á gatnamótum sé að ökumenn horfi fyrst og fremst á ógnir sem að þeim steðja, þ.e. frá öðrum bílum. Ef hjólað er greiðlega eftir gangstétt, vinstra megin, samhliða umferð sé hætta á slysum á gatnamótum því meiri. Ökumenn þurfi að vera vakandi fyrir því að hjólreiðamenn geti birst úr „vitlausri átt.“

 

Talningin er besta vísbendingin

Enn er verið að vinna úr þeim tölum sem söfnuðust í umferðartalningu í Reykjavík í haust og von er á skýrslu í þessari viku. Það liggur þó fyrir að hlutfall hjóla miðað við bíla var 0,5% árið 2009, fór upp í 0,82% árið 2010 og er nú komið upp í 1,26%.

Ekki er talið sérstaklega á hjólastígum en það stendur til. Talningin gefur því aðeins takmarkaðar upplýsingar um fjölda hjólreiðamanna en hún er samt besta vísbendingin sem til er.

 

Fleiri kaupa nagladekk

Sífellt fleiri setja nagladekk undir reiðhjól en nagladekk eru nauðsynlegur búnaður fyrir þá sem hjóla í vinnuna að vetri til. Enn er salan mikil og sem dæmi má nefna að verslunin Örninn gerir ráð fyrir að selja um 1.200 slík dekk í heild- eða smásölu í vetur.

 

Eyddi séreignasparnaðinum

Allt starf Landssamtaka hjólreiðamanna er unnið í sjálfboðaliðavinnu en það felst m.a. í að senda sveitarfélögum ábendingar um hættuleg gatnamót, gera athugasemdir við misgáfuleg lagaákvæði og berjast fyrir hagsmunum hjólreiðamanna yfirleitt. Þetta er töluverður starfi en áhuginn er mikill. Sem dæmi má nefna að Sesselja tók sér frí frá vinnu árið 2009-2010, tók út allan séreignalífeyrissparnaðinn sinn og varði heilu ári í að vinna hjólreiðum fylgi og kenna börnum og fullorðnum hjólafærni, þ.e. hvernig á að hjóla í umferð og á stígum. Sesselja starfrækir nú fræðasetur um hjólreiðar, Hjólafærni á Íslandi, en þar er m.a. hægt að panta fyrirlestra um samgönguhjólreiðar, fá leiðbeiningar og ýmislegt fleira. Morten og Sesselja segja að mikil bót væri að því ef landssamtökin fengju framkvæmdastjóra í hálft starf en af því hefur ekki orðið – peningarnir eru ekki til.


Uppruni: Morgunblaðið 14 okt. 2011

Sjá einnig myndband með frétt á mbl.is: http://mbl.is/frettir/innlent/2011/11/14/gollud_gatnamot_auka_haettuna/

{jathumbnail off}