Ferðast um landið í strætó með hjól

Strætó hefur nú sett upp hjólagrindur aftan á vagna á langferðaleiðum. Net almenningssamgangna um Ísland er að þéttast og mikil aukning er í notkun strætó milli landshluta, enda sjá margir sér hag í að spara eldsneytiskostnað með fjölbreyttari ferðamáta.

Í síðustu viku voru settar hjólagrindur á strætisvagna sem aka milli Reykjavíkur og Akureyrar, Hólmavíkur, Stykkishólms og á Snæfellsnes. Hver grind tekur fjögur reiðhjól. Þetta eykur mjög möguleika þeirra sem ferðast um landið án einkabílsins, því til þessa hefur þurft að pakka reiðhjólum í farangursgeymslur þar sem allur gangur er á því hvort pláss er fyrir þau.

Hjólreiðaferðir um landið eru því orðinn ákjósanlegri valkostur en áður þar sem ferðafólk getur stytt sér leiðir milli landshluta og t.d. sloppið við að hjóla fyrsta legginn, út úr höfuðborginni.
 

Erum á jaðri byltingar

Svo kallað reiðhjólaþjónustukort fyrir Ísland var gefið út fyrr í sumar. Þar má sjá heildarsamantekt á almenningssamgöngum og reiðhjólaþjónustustöðum um landið allt. Kortið er gefið út á ensku og er hugsað fyrir útlendinga sem kjósa að ferðast hjólandi um Ísland. Hjólreiðafrí innanlands fara þó vaxandi í vinsældum meðal Íslendinga, samhliða aukinni reiðhjólanotkun.

„Við erum í jaðri byltingar og viðhorfsbreytinga sem eiga sér stað um alla Evrópu. Sveitarfélögin eru að tengja sig saman með bættum samgöngum og hjólaleiðir eru í mikilli þróun,“ segir Sesselja Traustadóttir framkvæmdastýra Hjólafærni á Íslandi, sem stendur að útgáfu reiðhjólaþjónustukortsins.

Hún segir mikla gerjun í hjólreiðamenningu á Íslandi. „Við finnum fyrir ævintýralegum meðbyr. Það er margir að átta sig á því hve mikið er hægt að gera.“ Þannig er m.a. unnið að því að koma Íslandi „á kortið“ sem áfangastaður fyrir hjólreiðafólk með því að þróa skemmtilegar hjólaleiðir sem ekki eru bundnar við vegkantinn á þjóðvegi númer 1.

Markmiðið með því er að efla s.k. „slow tourism“ hér á landi. „Við viljum fá til landsins fólk sem fer um með umhverfisvænum hætti, stoppar lengur og kemur ekki með allt með sér heldur nærist á þeirri þjónustu sem verður á vegi þeirra,“ segir Sesselja.
 

Aftur í rúturnar eftir áratugahlé

Til þess að hjólreiðar fái þrifist sem valkostur í samgöngum þarf að gera ráð fyrir þeim í samgöngukerfinu. Hjólafærni hefur m.a. gert þarfagreiningu á því hvaða innviði þurfi að byggja upp til að greiða götu þeirra sem ferðast öðru vísi en á eigin bíl. Almenningssamgöngur eru þar á meðal og lýsir Sesselja yfir mikilli ánægju með skref strætó til aukinnar þjónustu við hjólreiðafólk.

Smári Ólafsson samgönguverkfræðingur hjá Strætó bs. segist ekki geta fullyrt um það ennþá hvernig reiðhjólagrindurnar reynast, enda aðeins nokkrir dagar síðan þær voru settar upp. Þær séu liður í að bæta þjónustu strætó enn frekar og nú þegar hafi nokkur hjól verið flutt með þessum hætti.

Morgunblaðið sagði frá því á dögunum að mikil aukning hefur verið í fjölda farþega sem ferðast um Suðurland og Vesturland eftir að Strætó bs. tók við akstri þar af sérleyfishöfum. Rúmlega sjöfalt fleiri fara nú um Suðurland með strætó og fjórfalt fleiri um Vesturland, miðað við árið 2010.

„Nú er að gerast það sem við höfum varla séð síðustu áratugina, að Íslendingar eru farnir að ferðast aftur með rútum um landið,“ segir Smári. Lykilástæðuna telur hann þá að kerfið sé nú sniðið að íbúum, en ekki ferðamönnum eins og áður var.
 

Lægri fargjöld en fleiri farþegar

„Þá var keyrt eins lítið og hægt var á veturna en svo var þetta sniðið að ferðamönnum á sumrin. Þannig var það í mörg ár og alltaf minnkaði notkunin meðal Íslendinga. Núna þegar þetta er sniðið að íbúum sem þurfa að ferðast frá A til B, þá kemur fólk enda er notkunin góð bæði yfir vetrar- og sumarmánuðina. Það er ekki þessi mikli árstíðarmunur sem var.“

Framlög sveitarfélaga og ríkis til almenningssamganga eru sömu upphæðar og var þegar ferðirnar voru í höndum sérleyfishafa, einn milljarður á ári. Fargjöldin lækkuðu hins vegar þegar strætó tók við rekstrinum.

„Gjaldskrá strætó var tekin og færð yfir allt landið með svæðaskiptingum. Það er mjög fjölskylduvæn gjaldskrá, það er ódýrt fyrir börn og eldri borgara til dæmis. Þetta þýðir að tekjustreymið á hvern farþega er miklu lægra heldur en var, þannig að við þurfum fleiri farþega til að þetta gangi upp,“ segir Smári.

Það virðist líka ætla að ganga því farþegum fer áfram fjölgandi. Leiðakerfi strætó um landið verður þétt enn frekar um næstu áramót því þá er stefnt að því að hefja ferðir með sama sniði um Reykjanesið. Þá munu Hólar í Hjaltadal og Hofsós tengjast við Akureyrarleiðina í sumar.

Aðspurður segir Smári að sveitarfélög á Vestfjörðum hafi einnig verið að skoða möguleika í stöðunni en þeim sé þröngur stakkur sniðinn.

mbl | 17.7.2013 | mbl.is


Sjá einnig frétt hjá Strætó:

Hjólagrindur á strætisvagna sem keyra á  landsbyggðinni

Nú geta farþegar Strætó sem ferðast á landsbyggðinni ferðast með hjólið sitt með sér, því hjólagrindur hafa verið settar  á vagna sem aka milli Reykjavíkur og Akureyrar og frá Borgarnesi um allt Snæfellsnesið, á næstu dögum verða einnig settar hjólagrindur á leið 51 sem keyrir milli Reykjavíkur og Selfoss. Hver hjólagrind tekur fjögur hjól og mjög einfalt er að setja hjólin á og taka þau af.

Mikil aukning er meðal farþega á landsbyggðinni og með tilkomu hjólagrindanna er Strætó orðinn ákjósanlegur ferðamáti fyrir hjólreiðafólk. Ef verkefnið gengur vel verða hjólagrindur settar á fleiri vagna.

19.7.2013 | http://www.straeto.is/um-straeto/frettir/nr/566

Mynd frá Sesselju Traustadóttur - úr Facebook grúppu Hollvinasamtaka Strætó