Tweed Ride Akureyri 31. ágúst

Árið 2012 var fyrsti Tweed Ride viðburðurinn haldinn í Reykjavík. Forskriftin kom frá samskonar viðburði sem haldinn var í London þrem árum fyrr og hefur verið að breiðast út um allan heim. Þessi viðburður átti að gera fólki kleift að hittast og njóta þess að hjóla saman um miðbæ Reykjavíkur í skemmtilegri hópreið.  Þátttakendur voru hvattir til að koma í glæsilegum fötum, helst í anda 5. og 6. áratugs síðustu aldar og hjóla saman í rólegheitum, njóta borgarinnar, samverunnar, menningar og fallegs útsýnis.

Um það bil 70 manns hittust fyrir framan Hallgrímskirkju og síðan var lagt af stað niður í bæ og að Norræna húsinu þar sem boðið var upp á létta hressingu (íste og límonaði) í boði veitingastaðarins Dill. Síðan var haldið áfram og hjólað upp á Laugarveg, í gegnum Vesturbæinn og endað á Kex Hostel. Þar fór fram verðlaunaafhending fyrir fallegasta hjólið og best klæddu þátttakendurna (dömuna og herrann).

Í stuttu máli sagt, þá tókst þessi viðburður frábærlega og vakti mikla athygli.
Nú er komið að Akureyri. Tveir áhugamenn um klassískan klæðnað og hjólreiðar eru að skipuleggja Tweed Ride Akureyrar. Elvar Freyr Pálsson sem þekkir hjólreiðar frá blautu barnsbeini og kærastan hans Arndís Eggerz eru að skipuleggja uppákomuna. Fyrirhugað er að halda þennan viðburð þann 31. ágúst næstkomandi á Akureyrarvöku, hjóla um miðbæ Akureyrar og enda í síðdegishressingu í breskum anda á Backpackers Akureyrar. Verðlaun verða veitt fyrir best klædda herrann og dömuna sem og fyrir glæsilegasta fararskjótann. Ætlar Levi‘s búðin að verðlauna flottasta karlmanninn, Geysir shop best klæddu dömuna og Reiðhjólaverzlunin Berlin flottasta hjólið.

Herrar og dömur Akureyrar eru hvött til að fara í Tweed jakkana og draktirnar eða draga fram sparidressið úr skápnum og mæta í hjólreiðaförina í sumar og ljá bænum fagurt og glæsilegt yfirbragð.  Skráning og nánari upplýsingar verða á facebook síðunni Tweed Ride Akureyrar.

Fleiri spurningar svara Elvar í síma 8472114 eða á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. / This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Alexander,
markaðstjóri Tweed Ride Hreyfingar á Íslandi


Á vefnum hjólreiðar.is eru ótal myndir frá Tweed Ride Reykjavik bæði 2012 og 2013 eins og þessi stórborgarlega mynd sem var tekin á Snorrabraut.