Hjólreiðar eru betri - hjólreiðar.is

Páll Guðjónsson

Páll Guðjónsson hefur unnið ötullega að því að efla hjólreiðar á Íslandi undanfarna áratugi. Fyrst í Fjallahjólaklúbbnum, síðan með Landssamtökum hjólreiðamanna frá stofnun þeirra og hjálpaði til við stofnun Hjólafærni á Íslandi. Hann þýddi og aðlagaði fyrsta kennsluefnið um samgönguhjólreiðar sem kom út á íslensku 2008 í Hjólhestinum, fréttabréfi Fjallahjólaklúbbsins sem hann hefur ritstýrt lengi. Fræðsluefnið var endur útgefið árið 2010 í bækling sem var dreift samhliða Hjólað í vinnuna keppninni. Upp úr því varð til hvata- og fræðsluverkefnið hjólreiðar.is með samnefndri heimasíðu.

Hjólreiðar eru betri – hjólreiðar.is

Hjólreiðar.is eru hvata- og fræðsluverkefni sem er beint að nýliðum. Því er ætlað að efla hjólreiðar, fræða um kosti hjólreiða, eyða mýtum sem fælir fólk frá hjólreiðum og að kenna tækni samgönguhjólreiða til að hámarka öryggi þegar hjólað er í þéttbýli.

Hjólreiðar.is láta aðra um að fjalla um hjólasport og ferðalög á hjólum en einbeitir sér þess í stað að því að fá sem flesta að fara ferða sinna hjólandi þegar það hentar. Mottóið er að klæða sig fyrir áfangastaðinn en ekki ferðalagið enda minnsta málið að hjóla í venjulegum fötum stuttar leiðir.

Á hjólreiðar.is er einnig stórt safn mynda af allskonar fólki að hjóla um í þéttbýli á Íslandi og tekur þessi hluti mið af Cycle Chic vefnum sem hefur mótað umræður um hjólreiðar um allan heim. Mörgum sem búa í bandarískum bílaborgum finnst ótrúlega framandi að sjá myndir af fólki í venjulegum fötum að hjóla. Með því að færa ímyndina frá keppnissportinu að almenningi getur fólk betur samsamað sig við hugmyndina um að það sé bara normal að hjóla í vinnuna eða að hitta vini.