Athugasemdir LHM við umsögn Rannsóknarnefndar umferðarslysa við umferðarlög vorið 2010

Athugasemdir LHM við umsögn Rannsóknarnefndar umferðarslysa við umferðarlög vorið 2010 má lesa hér: PDF skjal.

Þær voru látnar fylgja umsögn LHM við frumvarp til umferðarlaga í mars 2011.

Fyrir neðan er inngangstextinn:

 

Athugasemdir LHM við umsögn Rannsóknarnefndar umferðarslysa við umferðarlög vorið 2010


Það er gott að sjá hversu mikla vinnu Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur lagt í að rökstyðja sína afstöðu til umferðarlaga. Hér skal fjallað um rök sem tengjast skyldunotkun á reiðhjólahjálmum, eins og þau koma fram í umsögn RNU, við 553. mál á 138. löggjafarþingi, móttekið 4. júni 2010, samkvæmt vef Alþingis.

Áður en lengra er haldið, er hér í stuttu máli niðurstaða LHM varðandi umsögn RNU:

  • Ekki er tekin fyrir reynsla annarra þjóða af hjálmaskyldu við hjólreiðar.
  • Úttekt á reynslu annarra þjóða ætti að vera í forgangi.
  • Umsögnin virðist hliðholl hjálmaskyldu í vali á vísindagreinum.
  • Ekki er minnst á þá umræðu sem hefur átt sér stað í vísindasamfélaginu, né rökin á móti.
  • Ekki er minnst á sterk rök á móti hjálmaskyldu sem finnast í þeim gögnum sem RNU vísar til.
  • Úttektir á rannsóknum á virkni hjálma og á virkni skyldunotkunar gerðar af meiri fagmennsku komast að þeirri niðurstöðu að virknin er mun minni en menn hafa haldið, og varlega ætti að fara í að álykta um skýra lýðheilsulega ávinninga af nútíma hjálmum, jafnvel þótt einungis sé litið til umferðaröryggis.

 

Bakgrunnur LHM í hjálmaskyldumálinu.

Það er ekkert leyndarmál að Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) hafa mun minni trú á gagnsemi slíkra íþyngjandi reglna eða laga fyrir hjólreiðamenn, en margir aðrir sem telja sig vita hvað sé öryggi hjólreiðamanna fyrir bestu.  LHM hefur allt frá árinu 2005, í umferðarráði, á sínum vef, og í samskiptum við ýmsa aðila talað fyrir því að málið verði skoðað mun betur og heildstæðara, áður en opnað verði fyrir hjálmaskyldu fullorðinna.  Höfum við verið í samstarfi og í rökræðum við erlend félög í þessum efnum. Ber þar helst að nefna Evrópusamtök hjólreiðamanna, European Cyclists' Federation (ECF), sem er málsvari hjólreiða til samgangna, frístunda og ferðalaga, og þátttaka á stærstu og virtustu alþjóðlegu ráðstefnunni um hjólreiðar.  Á þessum ráðstefnum hefur ítrekað verið rætt um hvers vegna þurfi að spyrna við hjálmaskyldu, og rök með og á móti tekin til skoðunar.

Landssamtök hjólreiðamanna hefur ítrekað óskað eftir málefnalegum rökræðum við aðila úr Slysavarnarráði, hefur rætt við aðila Lýðheilsustöðvar og sent erindi til Landlæknis. Áhugi hefur verið fremur lítill á málefninu og þekkingin kannski sömuleiðis.  Það er fyrst með umsögn RNU við frumvarp til umferðarlaga (heildarlög), vorið 2010, sem loks glittir í metnaðarfullann faglegan rökstuðning við hjálmaskyldu.  Við getum hins vegar ekki séð að rökstuðningurinn bregðist við aðalatriðum í rökstuðningi LHM (og um leið rökstuðningi ECF), gegn hjálmaskyldu.  Umsögn RNU gefur heldur ekki til kynna að RNU sé meðvituð um alþjóðlega umræðu meðal fræðimanna sem hefur farið fram meðal annars á síðum og vefjum rítryndra læknatímarita.  Það vantar faglega samtalið hérlendis um öryggismál hjólreiðamanna.

lhmmerkitext1