Dorthe Pedersen - Hjólað óháð aldri

Það hafa allir gott af útiveru og mannlegum samskiptum en þegar maður þarf að flytja á öldrunarheimili er hætt við einangrun og tilbreytingaleysi því þótt hugað sé að helstu læknisfræðilegu þörfum á slíkum stofnunum þá minnkar tilvera vistmanna oft verulega.

Í þessu einstaka verkefni hefur verið þróuð leið til að útvíkka sjóndeildarhringinn og tengja bæði kynslóðir og fólk innan hverfisins með því að virkja sjálfboðaliða til að fara reglulega með vistmenn í hjólatúra. Dorthe Pedersen lýsir í þessu yndislega erindi hvernig þetta verkefni spratt upp af sjálfu sér.

Ole Kassow hjólaði til vinnu daglega í öllum veðrum og hafði veitt athygli gömlum manni sem bjó á elliheimili í hverfinu, manni sem sat oft á bekk á leið Ole og heilsaði þegar hann fór framhjá. Einn daginn ákvað Ole að vera góður nágranni og leigði farþegahjól, bankaði uppá í elliheimilinu og spurði hvort ekki mætti bjóða einhverjum í hjólatúr.

Hann fór í góða hjólaferð með Gertrud nokkurri og starfsmanni. Gertrud naut bæði ferðarinnar, umhverfisins en ekki síst samtalsins við Ole í ferðinni. Gertrud sagði öllum frá þessari skemmtilegu hjólaferð og það var mikill áhugi hjá fleirum að prófa þetta. Stuttu seinna hringdi forstöðumaður heimilisins í Ole og spurði hvort hann vildi ekki endurtaka þetta.

Það kostaði að leigja þessi farþegahjól svo á endanum sendi Ole póst til borgaryfirvalda í Kaupmannahöfn og spurði hvort ekki væri hægt að útvega elliheimilinu eitt svona hjól svo hann gæti boðið nágrönnum sínum oftar í hjólaferðir. Þar starfaði Dorthe og sá þarna nýja leið til að takast á við mörg af þeim vandamálum sem verið var að fást við og fór svo að þessi póstur breytti lífi hennar og margra annarra. Hún fékk það í gegn að ekki bara eitt hjól var keypt heldur fimm og auglýst var eftir fleiri sjálfboðaliðum til að stýra þeim.

Í framhaldinu hefur verkefnið vaxið og dafnað. Allir njóta góðs af og njóta ferðanna og félagsskaparins. Enginn skortur hefur verið á sjálfboðaliðum og oft verða góð kynni. Ekki njóta þeir síður sem glíma við það að geta illa tjáð sig þó þeir skilji allt því það er hægt að njóta upplifunarinnar án þess að þurfa að færa það í orð.

Þetta verkefni hefur verið tekið upp í fjölda landa og nú eru fyrstu hjólin á leið til Íslands. Opnuð hefur verið Facebook síða með nánari upplýsingum: Hjólað óháð aldri.

Mynd: Dorthe Pedersen ásamt Degi borgarstjóra Reykjavíkur og Sesselju Traustadóttir tekin þegar Dagur afhenti samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar 2015 en Sesselja hlaut þessa viðurkenningu 2014 og Landssamtök hjólreiðamanna 2012.

 

Dorthe Pedersen frá Cykling uden alder í Kaupmannahöfn.

Erindið er á ensku og skipt upp í nokkra hluta svo myndbönd með fyrirlestri komi með.