Skíðasvæði breytt í hjólasvæði

moggiSkálafell bike park var opnaður formlega í gær en um er að ræða hjólagarð sem verður opinn um helgar frá kl. 12-17. Garðurinn er kjörinn fyrir hjólreiðagarpa frá 7 ára aldri og fara þeir þá með hjólin sín upp með skíðalyftum og hjóla niður. Brautin er of brött til að hægt sé að hjóla upp hana.

 

Opið meðan veður leyfir

Magne Kvam, hönnuður brautarinnar, er ánægður með aðsóknina á opnunardaginn. "Aðsóknin var æðisleg og fram úr öllum vonum. Við seldum um 150 passa í lyfturnar. Svo var frábært veður þannig að þetta var mjög vel heppnað." Magne segir að hjólagarðurinn verði opinn eins lengi og veður leyfi og fólk mæti. Hjólagarpar geti keypt dagspassa á 2.000 kr. eða borgað 500 kr. fyrir staka ferð, þá hvort sem er til að hjóla niður eða ganga.

Magne er sjálfur mikill hjólreiðamaður og hefur hjólað mikið erlendis, t.a.m. í Ölpunum. "Það er orðið mjög algengt í Evrópu og Skandinavíu að skíðasvæðum sé breytt í hjólasvæði á sumrin," segir hann.

Frétt í Morgunblaðinu 9. ágúst 2010