Haraldar hjóla til heilla

mbl-100810Lionsklúbbur Njarðvíkur hefur í dag söfnunarátak til styrktar krabbameinssjúkum börnum. Söfnunin fer þannig fram að tveir félagar úr klúbbnum ætla að hjóla hringinn í kringum Ísland á tólf dögum og safna áheitum.

»Ferðin mun taka tólf daga, ég hjóla og með mér er nafni minn Helgason sem verður á bíl og sér um vistir. Hann ætlar líka að hjóla með mér hluta úr leiðinni,« segir Haraldur Hreggviðsson hjólagarpur frá Njarðvík.

Hann segir þetta í fyrsta skipti sem Lionsklúbburinn fer út í svona stóra söfnun en þeir séu samt mjög öflugir í að styrkja líknarstarf.

»Nýlega létust tveir ungir drengir úr Njarðvík úr krabbameini svo það liggur nálægt okkur að taka okkur þetta verkefni fyrir hendur. Allt sem safnast rennur beint til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna,« segir Haraldur.

Allir geta hjólað með

Haraldur leggur af stað í dag frá Hlíðasmára í Kópavogi og ætlar að hjóla austur að Skógum í fyrsta áfanga.

»Næsta dag verður hjólað á Kirkjubæjarklaustur, síðan í Skaftafell, á Hornafjörð, Breiðdalsvík, Egilsstaði, í tveimur áföngum á Mývatn, Akureyri, Skagafjörð, Hvammstanga, Borgarnes og svo Reykjavík. Við ætlum að koma til baka á sunnudeginum þegar Menningarnóttin er. Hringnum verður lokað í Hlíðasmára þar sem við verðum með smámóttöku. Við hvetjum alla til að taka á móti okkur þar og ef einhverjir vilja hjóla með okkur síðasta spölinn er það velkomið. Fólk getur alls staðar á leiðinni hjólað með okkur en bíllinn er vel merktur.«

Styrktarlína og reikningur

Aðspurður segist Haraldur vera heilmikill hjólagarpur.

»Ég er búinn að vera að hjóla í mörg ár þó að ég sé kominn af léttasta skeiðinu, rúmlega fimmtugur, en ég er með fullt af orku utan á mér. Ég hef ekki hjólað svipað þessu áður, en ég hef hjólað á Akureyri og hef verið að taka langa túra um helgar og það ætti að liggja beint við að fara hringinn næst,« segir Haraldur sem er búinn að vera að huga að þessari ferð núna í rúmt ár. »Við hlökkum mikið til og erum spenntir fyrir því að leggja í hann.«

Hægt er að fylgjast með ferðum Haraldar og Haraldar á Facebook-síðu söfnunarinnar Hjólað til heilla og á heimasíðu Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna.

»Við erum með styrktarlínu sem er 9015010, þá dragast 1.000 kr. af símreikningnum. Einnig er hægt að leggja inn á reikning í Sparisjóðnum í Keflavík, reikningsnúmerið er: 1109-05-412828 og kennitalan 440269-6489,« segir Haraldur að lokum og hvetur fólk til að styrkja þetta góða málefni.

Frétt í Morgunblaðinu 10 ágúst 2010

 
Mynd: Glaðbeittir Haraldur Helgason og Haraldur Hreggviðsson tilbúnir að leggja af stað hjólandi hringinn.