Keppt í hlaupum, hjólreiðum og kajakróðri í ævintýrahlaupinu

mbl-100907Keppendur í ævintýrakeppninni sem efnt verður til laugardaginn 2. október þurfa að hlaupa 10 km, hjóla 20 km og róa kajökum 5 km leið. Hlaupaleiðin er ekki merkt heldur er um svokallað rathlaup að ræða en þá reynir á kunnáttu keppenda í að lesa af korti og áttavita. Ekki er upplýst um keppnisleið, sem eykur enn á spennuna. Um liðakeppni er að ræða og eru fjórir í hverju liði.

Aðstandandi keppninnar, sem nefnist Októberspretturinn 2010, er Félag íslenskra ævintýrakeppna. Fyrirmyndin er frá útlöndum en þar taka keppnir frá 12 klukkustundum og upp í tíu daga.

Kári Logason, sem er í stjórn félagsins, segir að búist sé við að 10-12 lið skrái sig til leiks og því gætu keppendur verið 40-48. Pláss er fyrir fleiri því til eru bátar fyrir um 80 manns. Kári segir að ef einhver hafi áhuga á að vera með en nái ekki að safna saman í lið geti hann sent tölvupóst á forsvarsmenn keppninnar og reynt verði að koma honum að. Vefsíða keppninnar er www.adventurerace.is.

Sjá frétt í Morgunblaðinu 7. september 2010.

moggi