Er reiðhjól ekki rétta gjöfin fyrir makann?

101214frettabladid-pall-rosinkransÞað er ekki tekið út með tómri sældinni að velja réttu gjöfina fyrir makann. Það er svo margt sem getur farið úrskeiðis. Stundum tekst þó vel til og úr verður ógleymanleg minning.

Hin klassíska sýn á eiginmanninn sveittan og hlaupandi niður Laugaveginn korteri fyrir lokun á Þorláksmessu í leit að gjöf fyrir eiginkonuna, á sér dyggan stuðningsmann í söngvaranum Páli Rósinkrans. Hann játar fúslega að hann sé oftar en ekki einn af þeim sem taki þátt í karladeild Þorláksmaraþonsins. "Það er engin regla en það endar yfirleitt á því að ég er í síðasta lagi, ég get ekki neitað því."

Eftirminnilegasta gjöfin kom hins vegar þegar hann tók sér aðeins meiri tíma og umhugsun við gjafakaupin. "Sjálfur átti ég hjól en var orðinn leiður á því að hjóla alltaf einn. Þess vegna gaf ég konunni minni hjól til þess að hún gæti komið með mér." Hjólinu var vel tekið og urðu túrarnir ófáir. "Þetta var sem betur fer ekki ein af þessum gjöfum sem safna ryki úti í bílskúr," segir Páll. "Við förum enn saman út að hjóla, sem er miklu betra en að standa einn í þessu."

- tg

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu 14. des. 2010