Endurbætur við undirgöng í Mjódd

Undirgöng í MjóddÍ október var unnið að endurbótum í Kópavogi við undirgöng undir Reykjanesbrautina í Mjódd frá Skemmuvegi (1. mynd). Þá hefur stígurinn sem liggur meðfram Reykjanesbrautinni verið framlengdur frá Skemmuvegi að Smiðjuvegi.Við undirgöngin varð slys í vetur þegar hjólreiðamaður fór niður kantinn og fótbrotnaði. Hörmulegt slys varð í sumar á Reykjanesbrautinni á þessum slóðum þegar ekið var á lítin dreng sem fór yfir götuna í stað þess að fara í undirgöngin.

Áður en aðkoman að undirgöngunum var löguð var hún slæm. Lýsing var léleg og erfitt að finna aðkomuna ef komið var eftir stígnum að sunnan, undirgöngin voru í hvarfi og oft var bílum lagt á malarplani ofan við undirgöngin. Vegna þess að stígurinn endaði varð annaðhvort að fara eftir neðstu götunni í iðnaðarhverfinu á Smiðjuvegi eða í undirgöngin í Mjódd. Nýi stígurinn opnar tengingu við stígakerfið í Fossvogi, að Stjörnugróf og að göngubrúnni yfir Reykjanesbraut norðan við Stekkjarbakka samanber loftmyndina (2. mynd)

2. mynd. Loftmynd

2. mynd. Loftmynd. Undirgöng og stígur í bláum lit, nýi stígurinn í rauðum lit og leiðin í Fossvog, Stjörnugróf og brú yfir Reykjanesbraut í grænum lit.

Þetta er mikil samgöngubót fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur á stígunum og nýtist vel fólki sem kemur úr Breiðholti og efri byggðum Kópavogs. Reykjanesbrautin er þarna mikill farartálmi fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Það er eins og annarstaðar í þessarri eyjaálfu sem höfuðborgarsvæðið er sundurskorið af umferðarmiklum stofnbrautum.

Það er þó rétt að minna á að vegfarendur þurfa að fara varlega í gegnum blindhornin í undirgöngunum (1. mynd). Hægja þarf vel á ferðinni, halda sig hægra megin og hringja bjöllu til viðvörunar um að maður sé að koma.

Sömuleiðis þarf að gæta að sér við stígamótin því þar geta orðið árekstrar. Hægja þarf á sér, svipast um eftir annarri umferð og hringja bjöllu. Hjólreiðamenn þurfa að muna að þetta er göngustígur og þeir þurfa að taka fullt tillit til gangandi vegfarenda. Hafa þarf í huga að margir gangandi vegfarendur eru ekki með nein ljós eða endurskin og sjást því illa eða alls ekki í myrkri. Hjólreiðamenn eiga auðvitað að vera með ljós á hjólunum þegar dimmt er. Á 3., 4. og 5. mynd er aðkoman að undirgöngunum sýnd.

Stígurinn nýi er annars vel hannaður og með gott útsýni en því miður er gámum hlaðið of nálægt stígnum þegar nálgast Smiðjuveginn. Að síðustu þarf að passa sig þegar farið er yfir Smiðjuveginn. Þar stendur til að merkja gangbraut yfir en það var ekki búið þegar 6. mynd var tekinn.

 

 

3. mynd. Horft niður til undirgangana

3. mynd. Horft niður til undirganganna, Mjóddin er hinumegin, stígur í suður til hægri, stígur í norður til vinstri.

 

4. mynd. Horft í norður

4. mynd. Horft i norður, nýi stígurinn að Smiðjuvegi handan við hjólreiðamennina. Undirgöngin niður til hægri, Skemmuvegur upp til vinstri.

 

5. mynd Horft norður

5. mynd. Horft í norður af stíg í suðurátt. Undirgöngin niður til hægri, Skemmuvegur upp til vinstri. Gömlu trétröppurnar sjást en verið er að leggja nýjar steyptar tröppur aðeins nær.

 

6. mynd. Leiðin yfir Smiðjuveg

6. mynd. Leiðin yfir Smiðjuveg. Þarna á að setja  gangbraut. Það er farið í gegnum op á grindverkinu til hægri á mynd handan götunnar til að halda áfram.

{jathumbnail off}