Flokkur: Pistlar

Setningarathöfn Hjólað í vinnuna 2016 - myndband

Hjólað í vinnuna var sett í 14. sinn 4. maí 2016 í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Hafsteinn Pálsson, formaður Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ, Illugi Gunnarsson, Mennta- og menningarmálaráðherra, Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar Reykjavíkur og Sesselja Traustadóttir, framkvæmdastýra Hjólafærni á Íslandi fluttu stutt hvatningarávörp áður en þau settu verkefnið með táknrænum hætti og hjóluðu af stað ásamt gestum.

Meira
Flokkur: Pistlar

Sáttmálar og stofnanir Sameinuðu þjóðanna hvetja til hjólreiða

Síðastliðinn október hittust ráðherrar samgöngumála Evrópusambandsríkja í Lúxemborg og sömdu yfirlýsingu um hjólreiðar sem loftslagsvænan samgöngumáta, „Cycling as a climate friendly Transport Mode“. Efni þessarar greinar byggist á því sem þar kom fram auk efnis frá heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umferðaröryggi og Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál.  Við vitum að samfélagið græðir á hjólreiðum. Börn sem hjóla í skóla einbeita sér betur en þau sem er skutlað. Starfsmenn sem hjóla í vinnuna eru sjaldnar veikir. Því fleiri hjólreiðamenn þeim mun öruggari verða hjólreiðar. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO myndi ótímabærum dauðsföllum fækka um meira en 100.000 á ári í Evrópusambandinu ef allir myndu hjóla eða ganga í 15 mínútur aukalega á dag. Þeir sem ekki hjóla sjálfir græða á hjólreiðum með færri  umferðarhnútum, minni mengun og hávaða og sparnaði í umferðarmannvirkjum og heilbrigðiskerfinu.

 

Samgönguráðherrar ESB vilja efla hjólreiðar

Ráðherrarnir sem hittust í Lúxemborg eru ekki í nokkrum vafa um mikilvægi hjólreiða. Ráðherrar samgöngumála sjá einnig að frumkvöðlastarf tengt hjólreiðum og hjólreiðaþjónustu muni fjölga störfum og efla rétta tegund af vexti í álfunni. Þeir telja hjólið nauðsynlegt til að létta á umferðarhnútum á mörgum þéttbýlissvæðum. Hjólið sem samgöngumáti sparar samfélaginu og einstaklingunum sjálfum aur. Ráðherrarnir settu saman aðgerðaáætlun í sjö liðum sem allar miða að því að efla hjólreiðar sem loftslagsvænan og skilvirkan samgöngumáta. Hjólreiðar þurfa að vera hluti af samgöngustefnu yfirvalda, efla þarf innviði og hvetja almenning til breyttrar hegðunar. Evrópusambandið skyldi þróa heildarstefnumótun á þessu sviði til að auka hlut hjólreiða. Stefnumótun í hjólreiðum ætti að tengja inn í verkefni svo sem CIVITAS og  „Smart Cities and Communities“ .  Samgönguráðherra ESB, Violetta Vulc sagðist reiðubúin til að aðstoða löndin með að koma upp góðu samskiptaneti og leiðum til að skiptast á reynslu í því að efla hjólreiðar.

 

Umferðaröryggisyfirlýsing Sameinuðu þjóðanna hvetur til eflingar hjólreiða

Jákvæð áhrif hjólreiða komu víðar við sögu á alþjóðafundum haustið 2015. Borgin Brasilía var gestgjafi fyrir alheimsfund SÞ í nóvember um umferðaröryggi. Í yfirlýsingunni „Brasilia Declaration on Road Safety“ voru settar fram leiðir til að stemma stigu við vaxandi fjölda látinna í umferðinni í heiminum. Brýnt er að bregðast við, meðal annars vegna þess að aukin bílaeign í löndum með vaxandi efnahag þýðir að óbreyttu fjölgun dauðsfalla í umferðinni. Með yfirlýsingunni er stefnt að aukningu í virkum samgöngumátum, þ.e.a.s. í hjólreiðum, göngu og sambærilegu. Aðgengi skal bæta og öryggi auka meðal annars með byggingu og viðhaldi gangstétta og hjólreiðabrauta og með því að fjölga hraðamyndavélum til að lækka umferðarhraða.  Þá eru hin sterku jákvæðu áhrif virkra samgöngumáta á heilsu, umhverfisismál og sjálfbæra þróun nefnt í sömu andrá. 

 

Loftslagssamningurinn samþykktur í París 12. desember

Laugardaginn 12. desember var samþykktur tímamótasamningur nær 200 ríkja um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ljóst er að til að ná þeim markmiðum sem sett eru fram þurfi að grípa til margvíslegra aðgerða.  Hjólreiðar og nokkrar aðrar lausnir í loftslagsmálum hafa þá sérstöðu að vera hluti af lausninni við margskonar vanda sem alþjóðsamfélagið vill bregðast við, eins og þegar hefur komið fram. Í Brynhildarskýrslunni, sem unnin var fyrir Umhverfisráðuneytið árið 2009, er niðurstaðan sú að aðgerðir til að auka hlutdeild hjólreiða í samgöngum í þéttbýli skili hreinum hagnaði í stað þess að auka útgjöld. Þetta er í samræmi við fjölda rannsókna sem reiknivél WHO, HEAT for cycling byggir á.  Hjólreiðar sem lausn munu án vafa skipa verðskuldaðan sess á heimsráðstefnunni HABITAT um betri borgir næstkomandi haust, en senn mun mikill meirihluti manna búa í borgum.

Hjólreiðar hefðu mátt vera enn sýnilegri á sviði heimsmála, en síðustu misserin hafa Evrópusamtök hjólreiðamanna, European Cyclists‘ Federation (ECF) fengið byr í seglin og að undirlagi SÞ höfðu þau frumkvæði að stofnun Heimssamtaka um hjólreiðar til samgangna og ferðalaga, World Cycling Alliance, til að  eiga lögformlega rödd á vettvangi þeirra.

 

Koma svo, Ísland

Eftir lagabreytingu 2007, varð loks heimilt að íslenska ríkið taki þátt í að fjármagna lagningu stíga, næstum til jafns við reiðstíga. Stígar hafa svo verið lagðir, en uppfæra þarf lagaumhverfið til að hamla ekki aukningu hjólreiða.  Heildstæða áætlun um eflingu hjólreiða vantar.

Fyrir Alþingi liggur þingsályktun um að til verði Hjólreiðaáætlun Íslands. Innanríkisráðuneytið og Samgönguráð geta líka átt frumkvæði að málinu.

Vonandi ber íslenskum stjórnvöldum gæfa til að efla hjólreiðar ekki siður en samgönguráðherrar á meginlandi Evrópu hafa nú heitið og öll rök um heimsins gagn og nauðsynjar hníga að.

 

Reykjavík, mars 2016
Ásbjörn Ólafsson, formaður Landssamtaka hjólreiðamanna (LHM)
Morten Lange fyrrverandi formaður Landssamtaka hjólreiðamanna

Flokkur: Pistlar

Hjólreiðar og krabbamein

Í fyrra greindi afrekshjólreiðamaðurinn Ivan Basso frá því að hann hefði greinst með krabbamein í eistum en Lance Armstrong greindist einnig með það árið 1996. Í kjölfar þess að tveir þekktir afrekshjólreiðamenn úr Tour de France veiktust höfðu menn eðlilega áhyggjur af því að hjólreiðar væri áhættuþáttur. Svo reyndist ekki vera[i]. Aldur mannanna hafði meira að segja. Krabbamein í eistum er sjaldgæfur sjúkdómur sem greinist oftast hjá körlum á aldrinum 15 til 34 ára og hægt er að lækna flestar gerðir krabbameins í eistum jafnvel þó það greinist á háu stigi.

Í nýlegri breskri rannsókn[ii] sem var gerð á 5200 hjólreiðamönnum kom í ljós að karlmenn á sextugsaldri sem hjóluðu níu tíma eða meira á viku væru allt að fimm sinnum líklegri til að greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli. Hins vegar fundust engin tengsl við ófrjósemi eða stinningarvanda. Rannsakendurnir sögðu að fyrir þá 2000 karlmenn, 50 ára eða eldri, væri þetta þó ekki óyggjandi sönnun um að hjólreiðar yllu krabbameini í blöðruhálskirtli. Niðurstöðurnar komu skýrsluhöfundum á óvart og hugsanleg skýring gæti verið að eldri menn sem hjóluðu mikið hefðu sterkari heilsuvitund og væru þ.a.l. líklegri til að láta greina sig. Þrátt fyrir það virtust þeir ekki fara oftar til heimilislæknis síns. Höfundur rannsóknarinnar læknirinn Mark Hamer benti á að ekki væri um stóran hóp að ræða og þörf væri á frekari rannsóknum. Hann lagði mikla áherslu á að hjólreiðar væru heilsusamlegar og drægju m.a. úr líkum á sykursýki 2, hjartasjúkdómum og heilablóðfalli.

Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) fengu Hanne Bebendorf Scheller verkefnastýru í forvarnardeild dönsku krabbameinssamtakanna til að halda erindi á árlegu hjólaráðstefnunni „Hjólum til framtíðar“ árið 2014[iii]. Hún er í teymi hreyfingar og næringar og hefur einbeitt sér að því að fá fólk til að nota hjól frekar en einkabíl. Danir leggja mikla áherslu á forvarnir gegn krabbameini. Þriðji hver Dani greinist með krabbamein og hægt er að koma í veg fyrir 4 af hverjum 10 tilfellum. Að reykingum undanskildum eru yfirþyngd og hreyfingarleysi helstu áhættuþættir krabbameins í Danmörku. Hægt væri að koma í veg fyrir 5000 tilfelli krabbameins ef allir Danir fylgdu eftir ráðleggingum um hreyfingu og mataræði.

Virkar samgöngur til vinnu er sú stefna sem vinnur helst gegn auknu hreyfingarleysi fólks. Í Danmörku mætti með hjólreiðum koma í veg fyrir 4500 dauðsföll, 100.000 sjúkrahúsinnlagnir og 3,1 miljón veikindadaga. Hreyfingarleysi kostaði danska heilbrigðiskerfið 3 milljónir danskra króna árið 2006. Hjólreiðar bæta heilsuna og danskar rannsóknir hafa sýnt að líkindi snemmbærra dauðsfalla minnka um 30% hjá hjólreiðafólki. Stuttar hjólreiðaferðir draga úr lífsstílssjúkdómum og streitu.

Eitt stærsta krabbameinið tengt hjólreiðum er sú meinsemd í hugum margra að ekki sé hægt að hjóla að vetrarlagi[iv] eða að veðurfarslegar og skipulagslegar aðstæður verði til þess að flestir reiði sig á einkabílinn[v]. Það er mjög auðvelt að hjóla að vetrarlagi, gengur oftast hraðar heldur en á einkabíl á styttri leiðum því það þarf ekki að skafa hjólið og leita að hjólastæði. Uppbygging og þjónusta hjólreiðastígakerfisins fer stöðugt batnandi en er auðvitað ekki lokið. Hjólreiðar spara samfélaginu peninga og einkennileg viðhorf er að berjast gegn uppbyggingu hjólreiða innviða og blanda því við óskyld mál. Það má velta því fyrir sér hvað af eftirtöldu er líklegast að valdi krabbameini; dekkjakurl, gossjálfssalar, sjoppur í íþróttahúsum, hreyfingarleysi barna sem hanga heima í tölvuleikjum í óhófi eða dekkjakurl vegna skutls foreldra barna sinna á æfingar. Vona að þessi grein svari því að einhverju leyti.

Ásbjörn Ólafsson,
formaður Landssamtaka hjólreiðamanna (LHM)[i] http://www.livescience.com/51538-testicular-cancer-cycling.html

[ii] http://www.dailymail.co.uk/health/article-2684947/Men-cycling-nine-hours-week-six-times-likely-develop-prostate-cancer-study-finds.html

[iii] http://lhm.is/images/stories/2014/hjolum-til-framtidar/erindin/hanne_changinghabits.pdf

[iv] http://vefblod.visir.is/index.php?s=9848&p=210105

[v] http://vefblod.visir.is/index.php?s=9842&p=209991

Flokkur: Pistlar

Ánægjulegar samgönguhjólreiðar: Borgarrými og gildi fegurðarupplifunar

Umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar, Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands og Arkitektafélag Íslands stóðu fyrir opnum fyrirlestri Dr. Hörpu Stefánsdóttur 23. janúar 2015. Fyrirlesturinn byggði á doktorsritgerð Hörpu sem nefnist á ensku “Pleasureable cycling to work -Urban spaces and the aesthetic experiences of commuting cyclists.”  Harpa varði doktorsritgerðina 24. október 2014 við Norges miljø- og biovitenskapelige universitet (NMBU).

Meira
Flokkur: Pistlar

Vínbúðin hlaut Hjólaskálina í ár

Frá fyrstu ráðstefnu Hjólum til framtíðar, sem haldin var 2011, hafa Hjólafærni á Íslandi og Landssamtök hjólreiðamanna, tilnefnt handhafa Hjólaskálarinnar.

Þeir sem áður hafa hlotið Hjólaskálina, eru:

Meira
Flokkur: Pistlar

Láttu ljós þitt skína

Landssamtök hjólreiðamanna og Hjólafærni á Íslandi stóðu fyrir jákvæðu átaki í dag til að hvetja fólk til að huga að ljósabúnaði reiðhjólsins. Fylgst var með ljósabúnaði þeirra sem leið áttu framhjá og ef vantaði ljós að framan eða aftan var því kippt í liðinn á staðnum af vösku liði sjálfboðaliða sem settu ljós á hjólin. Það tók þó dágóðastund að koma öllum ljósunum út því flestir voru alveg til fyrirmyndar í umferðinni.

Meira
Flokkur: Pistlar

Hjólastæði fyrir Reykjavíkurborg - hjólagrindur

Hér má sjá þann hönnunarstaðal sem Reykjavíkurborg hefur að mestu stuðst við frá 2001. Eins og sjá má höfðu bæði Fjallahjólaklúbburinn og Landssamtök hjólreiðamanna áhrif á endanlegu útkomuna. Enda var útkoman nokkuð sem mikil sátt hefur ríkt um.

 

Meira