Óskýrar reglur þvælast fyrir á göngu- og hjólreiðastígum

Þröng á þingi Þegar gangandi vegfarendur og hjólreiðafólk deilir stígum er stundum erfitt að mætast. Reglur um og merkingar á göngu- og hjólreiðastígum höfuðborgarinnar eru svo óljósar að væri það sama uppi á teningnum á akbrautum borgarinnar má slá því föstu að fjöldi manns færist í bílslysum á hverjum degi. Hér er kannski fullfast að orði kveðið... og þó.

Rétt er að hafa í huga að reiðhjól geta náð töluverðum hraða og verði árekstur við gangandi vegfaranda eða annan reiðhjólamann er augljóst að hætta á líkamstjóni er töluverð.

Hjólreiðamenn eiga samkvæmt umferðarlögum að halda sig hægra megin í umferðinni og það gildir jafnt á göngu- og hjólreiðastígum eins og annars staðar. Gangandi vegfarendur eru hins vegar ekki bundnir af hægri reglunni.

Óvissa um umferðarreglur

Þegar ferðast er um göngu- og hjólreiðastíga í Reykjavík verður manni það fljótlega ljóst að töluverð óvissa ríkir um umferðarreglurnar. Þetta er reyndar lítið vandamál þar sem göngu- og hjólreiðastígar eru aðskildir eins og í Fossvogi og á Ægisíðu. Málið vandast þar sem ætlast er til að hjólreiðamenn og gangandi vegfarendur deili með sér stígunum.

Skipta má þessum sameiginlegu stígum í þrennt.

Í fyrsta lagi stíga sem eru algjörlega ómerktir (engin miðlína). Almennt gildir hægri reglan um umferð en gangandi vegfarendur verða varla krafðir um að virða hana, þótt það væri reyndar einfaldast ef allir myndu fara eftir henni.

Ekki nóg pláss á 2+1

Í öðrum flokki eru þeir stígar sem skipt er í göngustíga og hjólreiðastíga með málaðri línu, svokallaðir 2+1 stígar. Þriðjungur er ætlaður hjólreiðamönnum en afgangurinn gangandi. Ekki er nokkur leið fyrir hjólreiðamenn að mætast eða taka fram úr innan þess þriðjungs sem er ætlaður hjólreiðamönnum og því þurfa þeir reglulega að fara inn á þann hluta sem ætlaður er fyrir gangandi.

Ákveðnir kostir fylgja þessari skiptingu, s.s. minni hætta á árekstri við gangandi fólk, a.m.k. meðan fólk virðir skiptinguna. Á hinn bóginn er ýmislegt óljóst um hvernig reiðhjólamenn eiga að mætast eða taka fram úr á þessum stígum og dæmi eru um að óvissan hafi valdið óhöppum og meiðslum.

Á veturna snjóar yfir línuna en þótt hún sjáist ekki vita sumir hvar hún liggur og fara eftir minni þegar þeir hjóla um stígana. Ef einhver sem er ekki með slíkt línuminni kemur úr gagnstæðri átt er augljóslega hætta á árekstri. Ekki er gott að henda reiður á því hver væri í rétti við slíkar aðstæður.

Ógreinileg lína flækir málin

Þriðji flokkurinn er síðan þeir stígar sem einu sinni voru 2+1 stígar en nú er málningin á línunni ýmist flögnuð af, borgin hefur fræst megnið af henni í burtu eða breytt stígnum í hreinræktaðan göngustíg en gleymt (?) að afmá línuna.

Stefna Reykjavíkurborgar er sú að hætta með þessa 2+1 stíga, m.a. vegna hvatningar frá samtökum hjólreiðamanna sem telja hana til óþurftar. Á hinn bóginn er nýbúið að hressa upp á miðlínu á hjólreiðastíg í Garðabæ.

Þessir stígar eru einna varasamastir því ekki er alltaf gott að átta sig á því hvort línan gildir eða ekki. Margir telja réttast að virða »gömlu« línuna, jafnvel þótt aðeins sjáist slitrur af málningu eða bara förin eftir fræsarann. Aðrir gera sér grein fyrir að línan gildi ekki lengur og halda sig »réttum« megin á stígnum, þ.e. hægra megin og taka ekkert mark á línuleifunum.

Ofan á þetta bætist að þeir sem fara um stígana eru mjög sundurlaus hópur. Þeir sem fara í göngutúr til að slappa af og gleyma sér í hugleiðingum um dýpstu rök tilverunnar eru yfirleitt ekki með hugann við hvort þeir séu hægra eða vinstra megin á stígnum. Hjólreiðamenn sem nota sömu stíga til að fara til og frá vinnu vilja hins vegar að þessar reglur séu á hreinu svo þeir geti komist með sem skjótustum og öruggustum hætti milli staða.

Bæði ríki og borg hvetja til hjólreiða en hjá stofnunum þeirra er samt undarlega lítið um upplýsingar um hvaða gildi merkingar á hjólreiðastígum hafa eða hvaða umferðarreglur gilda á stígunum. Í ljósi þess að sífellt fleiri nota stígana væri ekki úr vegi að gera bragarbót á því.

Rúnar Pálmason

 


Umferðarlög:
Réttur ætti að vera meiri á sérmerktum hjólastígum

Í 39. grein umferðarlaga segir að heimilt sé »að hjóla á gangstétt og gangstíg, enda valdi það ekki gangandi vegfarendum hættu eða óþægindum. Hjólreiðamaður á gangstétt eða gangstíg skal víkja fyrir gangandi vegfarendum.«

En hvað um hjólastígana? Hvaða réttindi hefur hjólreiðamaður þar?

Hjá samgönguráðuneytinu fengust þær upplýsingar að hafi sveitarfélag merkt greinilega að tiltekinn stígur eða hluti hans sé eingöngu ætlaður fyrir hjól, ætti réttur hjólreiðamanna að ganga framar rétti gangandi vegfarenda. Núgildandi umferðarlög væru þó ekki afdráttarlaus í þessu efni. Ekki væri heldur vitað um dóma sem hefðu fallið í málum sem varða rétt gangandi og hjólandi vegfarenda á sérstökum hjólastígum en væntanlega myndi dómari ávallt meta kringumstæður hverju sinni. Hjólreiðamaður sem kæmi á fullri ferð fyrir blindbeygju væri t.d. ekki endilega í rétti ef hann æki á gangandi vegfaranda sem hefði slysast yfir á hjólarein eða hjólastíg. Í umferðarlögum er nefnilega mælt fyrir um að allir sýni »eðlilega varúð«.

Sambærilegt ákvæði og er í 39. grein er í frumvarpi til nýrra umferðarlaga sem nú liggur fyrir Alþingi. Í því er búið að bæta við ákvæði um að þegar gangstétt eða göngustíg hefur verið skipt upp með miðlínu í rein fyrir gangandi vegfarendur annars vegar og hjólreiðamenn hins vegar, skuli hjólað á viðeigandi rein. Þá eigi hjólreiðamaður á gangstétt, göngustíg eða göngugötu að víkja fyrir gangandi vegfarendum.

Sveitarfélög hafa talsvert svigrúm til að ákveða notkun umferðarmannvirkja og sá réttur er styrktur í nýja umferðarlagafrumvarpinu.

Hjólastígar falla undir skilgreiningu á almennum stígum í frumvarpinu og eru þannig hluti af gatnakerfinu og því verða reglur um rétt hjólreiðamanna á sérstaklega merktum hjólastígum skýrari þegar frumvarpið verður að lögum, þar sem ekki er gert ráð fyrir að aðrir noti hjólastíga en hjólreiðamenn.

 


Uppruni: Morgunblaðið 8. feb. 2011