Lýðheilsan batnar í grænni Reykjavík

myndum-borgRæðumenn á málþinginu Myndum borg voru sammála um að berjast fyrir grænni borg til að bæta  lýðheilsu borgarbúa og gera borgina skemmtilegri. „Samgöngurnar eru sóknarfæri Reykvíkinga í grænu málunum, lýðheilsa eykst og umhverfið batnar,“ sagði Jón Gnarr borgarstjóri þegar hann setti málþingið á Samgönguviku og að Reykjavíkurborg yrði áfram í fararbroddi umhverfismála á Íslandi.

Jón Gnarr dró upp mynd af borginni þar sem 40% borgarbúa færu til og frá staða gangandi, hjólandi, í strætó eða samferða öðrum í bíl. „Hvernig yrði þá um að litast?“ spurði hann. „Við borgarbúar ráðum hvernig borgin er - við sköpum hana,“ svaraði Magnús Jensson arkitekt og fundarstjóri. Ræðumenn voru sammála um að ef göngu- og hjólreiðafólk yrði áberandi stór hópur í borginni myndi það breyta ásýnd hennar, auka gæðin og draga úr mengun. Jöfnuður í samgöngum milli ólíkra hópa yrði meiri með betri loftgæðum og fjölbreyttari ferðavenjum.

„Taka þarf upp hverfaskipulag, færa skipulagsvinnuna út í hverfin, nær notandanum sem jafnframt er greiðandinn,“ sagði Ólafur Mathiesen arkitekt og lagði jafnframt áherslu á að allir þyrftu að vinna saman, þvert á flokka, þvert á öll svið. Hugtakið hverfaskipulag er verkfæri til að vinna að sjálfbærni og nefndi Ólafur nokkra þætti sem í því felast t.d. ferðamynstur, tenging við opin rými og torg, starfsemi og hvernig tekið er tillit til óska og þarfa íbúa. „Árangursríkt hverfaskipulag byggir á gagnvirku samráði við íbúa og markvissri samvinnu „þvert“á sérfræðigreinar,“ sagði Ólafur (slá glærur).

„Verkefnið Myndum borg sýndi okkur svart á hvítu hversu mikið pláss mismunandi ferðamátar taka. Ef við greiðum ekki götu þeirra sem vilja ferðast á hjóli eða í strætó, þá er ekkert val um samgöngumáta í borginni,“ sagði Gísli Marteinn Baldursson borgarfulltrúi sem kynnti nýtt myndband og veggspjald sem sýnir ljóslega áhrif breyttra ferðavenja á borgina. Um það bil 100 manns tóku þátt í þessu verkefni og eru 70 þeirra á ljósmyndinni á veggspjaldinu og myndbandinu. Samtök um bíllausan lífsstíl stóðu að þessu verkefni og málþinginu á Samgönguviku í samvinnu við Reykjavíkurborg. Hægt er að panta veggspjaldið hjá samtökunum (sjá myndband).

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra ræddi á málþinginu um áhrif vistvænna samgangna í hnattrænu samhengi og um nýja samgöngusamninga við starfsfólk í Umhverfisráðuneyti og Páll Hjaltason formaður skipulagsráðs Reykjavíkur fjallaði m.a. um almenningsrými. Sigrún Helga Lund frá Samtökum um Bíllausan lífsstíl og Bergur Ebbi Benediktsson lögfræðingur fluttu einnig erindi á málþinginu.

Tengill

Myndbandið Myndum borg

Veggspjaldið

Samtök um bíllausan lífsstíl

Glærur úr fyrirlestir Ólafs Mathiesen


Sjá frétt á rvk.is: http://www.rvk.is/DesktopDefault.aspx/tabid-259/1198_read-23049/