Alþjóðlegir samningar um náttúruvernd

Hvaða alþjóðasamninga um náttúruverd hefur Ísland samþykkt og hverja hafa íslendingar annarsvegar fullgilt og hinsvegar ekki fullgilt?

 

Alþjóðlegir samningar um náttúruvernd

Samningar sem Ísland hefur samþykkt og fullgilt:

Alþjóðasamþykkt um fuglavernd

Samþykkt gerð í París árið 1950, öðlaðist gildi árið 1963. Ísland gerðist aðili að samþykktinni þann 28. janúar 1956 (Stj.tíð.A 14/1956). Markmið samningsins er að stuðla að verndun villtra fugla.

Ramsarsamningurinn um votlendi sem hafa alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf

Samningur gerður í Ramsar árið 1971, öðlaðist gildi árið 1975. Aðild Íslands tók gildi þann 2. apríl 1978 (Stj.tíð.C 1/1978, 10/1986 & 19/1993). Markmið samningsins er að stuðla að verndun votlendissvæða í heiminum, sérstaklega sem lífsvæða fyrir votlendisfugla. Hverju aðildarríki ber að tilnefna a.m.k. eitt votlendissvæði á skrá samningsins yfir alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði. Þrjú votlendissvæði hafa verið tilnefnd af hálfu Íslands: Mývatn-Laxá, Þjórsárver og Grunnafjörður.

Bernarsamingurinn um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu

Samningur gerður í Bern árið 1979, öðlaðist gildi árið 1982. Aðild Íslands tók gildi þann 1. október 1993 (Stj.tíð.C 17/1993). Markmið samningsins er að stuðla að verndun evrópskra tegunda villtra plantna og dýra og lífsvæða þeirra, einkum þeirra tegunda og lífsvæða sem fjölþjóðlega samvinnu þarf til að vernda. Jafnframt er það markmið samningsins að stuðla að fjölþjóðlegri samvinnu þar sem hennar er þörf til að vernda tegundir villtra plantna, dýra og lífsvæða. Samningnum fylgja fjórir viðaukar. Viðaukar I - III telja þær plöntur og þau dýr sem aðilum ber að vernda og ákvæði um verndun þeirra. Viðauki IV fjallar um forboðinn veiðibúnað og veiðiaðferðir.

Samningur um líffræðilega fjölbreytni

Samningur gerður í Ríó de Janeiro árið 1992, öðlaðist gildi árið 1993. Aðild Íslands tók gildi 11. desember 1994 (Stj.tíð.C 3/1995). Markmið samningsins er að vernda líffræðilega fjölbreytni og stuðla að sjálfbærri nýtingu lifandi náttúruauðlinda. Jafnframt er það markmið samningsins að stuðla að sanngjarnri skiptingu þess hagnaðar sem hlýst af nýtingu erfðaauðlinda sem og aðgangi að þeim og tækni til að nýta þær.

Samþykkt um alþjóðaverslun með tegundir dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu

Samþykkt gerð í Washington árið 1973, öðlaðist gildi árið 1975. Aðild Íslands tók gildi 2. apríl 2000. Markmið samningsins er að vernda tegundir dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu með því að takmarka og stjórna alþjóðlegum viðskiptum með þær og afurðir þeirra. Í samningnum eru reglur um inn- og útflutning og endurútflutning. Þær tegundir sem um ræðir eru skráðar í sérstökum viðaukum sem má breyta á þingum aðildarríkja samningsins.

Samningur um verndun menningar- og náttúruarfleifðar heims

Samningur gerður af Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna í París árið 1972. Aðild Íslands tók gildi 29. desember 1995. Hlutverk samningsins er fyrst og fremst að tryggja að verðmætar menningar- og náttúruminjar verði ekki tortímingu að bráð og það verði sameiginleg ábyrgð þjóða heims að vernda þær. Sérstaða sáttmálans er sú að hann setur menningarverðmæti og náttúruverðmæti undir einn hatt. Samkvæmt samningnum er samin heimsminjaskrá um einstæð mannvirki, sögustaði og náttúruminjar sem telja má hluta af sameiginlegum arfi mannkyns. Aðildarríki viðurkenna að þær menningar- og náttúruminjar sem settar eru á heimsminjaskrá séu alþjóðlegar og að skylda hvíli á þjóðum heims að vernda þær.

Hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna

Samningur gerður árið 1982. Aðild Íslands tók gildi þann 21. júní 1985. Um er að ræða fyrsta og eina heildstæða alþjóðasamninginn á sviði hafréttar. Með honum eru settar eða staðfestar reglur um öll not hafsins og tekur hann til allra hafsvæða, þar á meðal loftrýmisins yfir þeim og hafsbotnsins og botnlaganna undir þeim. Samningurinn fjallar m.a. um landhelgi, efnahagslögsögu, landgrunn, úthafið og alþjóðlega hafsbotninn, réttindi strandríkja og annarra ríkja til fiskveiða, annarrar auðlindanýtingar, siglinga og flugs, verndunar gegn mengun hafsins og lausn deilumála. Samningurinn leggur grunninn að lagalegum ramma um alla umfjöllun um málefni hafsins.

Samningur um verndun NA-Atlantshafsins

Samningur gerður í París árið 1992. Aðild Íslands tók gildi 25. mars 1998. Markmið samningsins er að koma í veg fyrir mengun Norðaustur-Atlantshafsins með því að draga úr mengun frá landi, mengun af völdum varps og brennslu, og mengun frá uppsprettum í hafi. Auk þess tekur hann á mati á ástandi hafsins og verndun og varðveislu vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni hafsvæðisins. OSPAR-samningurinn er einn mikilvægasti fjölþjóðasamningur um verndun hafsins.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun í löndum, sérstaklega í Afríku, sem eiga við alvarlegan vanda að etja af völdum þurrka og/eða eyðimerkurmyndunar. Fullgiltur 1. september 1997, öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. september 1997.

Samningar sem Ísland hefur samþykkt og en ekki fullgilt:

Árósasamningurinn

Samningur um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings við ákvörðun og aðgang hans að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum (gerður í Árósum árið 1998). Ísland undirritaði samninginn árið 1998 en hefur ekki fullgilt hann enn. Markmið samningsins er að stuðla að því að einstaklingar af núverandi og komandi kynslóðum hafi rétt til að lifa í umhverfi sem er fullnægjandi fyrir heilsu og velferð hvers og eins. Einstaklingar eiga að hafa rétt á aðgangi að upplýsingum, almenningur á að eiga rétt til þátttöku í ákvarðanatöku og eiga aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Á 126. löggjafarþingi Alþingis 2000–2001 var lögð fram þingsályktunartillaga um fullgildingu Árósa-samningsins en sú tillaga náði ekki fram að ganga.

Bókun um erfðabreyttar lífverurCartagena Protocol on Biosafety

Bókun við samninginn um líffræðilega fjölbreytni, gerð í Montreal árið 2000. Ísland hefur skrifað undir bókunina og verið er að vinna að staðfestingu. Bókunin fjallar um flutning erfðabreyttra lífvera milli landa.