Endurbætur Hafnarfjarðarvegar frá Vífilsstaðavegi að Lyngási - Forkynning

Skipulagsnefnd Garðabæjar hefur vísað tillögu Vegagerðarinnar að bráðabirgða endurbótum Hafnarfjarðarvegar á milli Vífilsstaðavegar og Lyngáss ásamt gatnamótum til forkynningar.
Boðað var til íbúafundar í Flataskóla miðvikudaginn 9. janúar klukkan 17:15-19:00. Þar voru tillögur kynntar og spurningum svarað. Fulltrúar LHM voru á fundinum og báru fram tvær fyrirspurnir. Stefnt er að því að veita framkvæmdarleyfi að undangenginni grenndarkynningu sbr. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillagan kallar á breytingar á aðliggjandi deiliskipulagssvæðum sem og nýja tillögu að deiliskipulagi. Hefur þeim einnig verið vísað til forkynningar í samræmi við 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Frestur til að skila inn ábendingum rann út 28. janúar 2019.
 
Hafnarfjarðavegur milli Vífilsstaðavegar og Lyngáss - forkynning
 
Markmið endurbótanna er að auka öryggi vegfarenda og að bæta umferðarflæði með því að bæta aðgengi hliðarvega inn á Hafnarfjarðarveg. Málið mun hljóta meðferð sem framkvæmdaleyfisumsókn án deiliskipulags en ekki er vikið frá því markmiði að Hafnarfjarðarvegur verði síðar lagður í lokaðan stokk og gatnamót verði mislæg eins og aðalskipulag Garðabæjar gerir ráð fyrir. Skipulagsnefnd vísar tillögunni til forkynningar.
 
 Kynning á vef Garðabæjar. 

 Umsögn LHM um forkynninguna dagsett 21.1.2019.
 
Í umsögn LHM kemur m.a. fram tillaga um að bæta við markmiði um að greiða leið gangandi og hjólandi um svæðið. Þá leggur LHM til sem valkost við eða með framkvæmdunum, að það verði skoðað og metið hverjar ferðavenjur eru á þessum stað í Garðabæ og hvaða aðrar aðgerðir gætu skilað breyttum ferðavenjum og náð þannig markmiði um að bæta umferðarflæði og auka umferðaröryggi. Athugasemdir LHM snúa síðan að þverunum fyrir gangandi og hjólandi yfir Vífilstaðaveg og Lyngás og hinsvegar að því að stígar séu greiðir og uppfylli "Leiðbeiningar um hönnun fyrir reiðhjól" sem Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hefur unnið að.
 
Málið var einnig til kynningar í janúar 2018. LHM gerðu einnig umsögn þá og er hún aðgengileg í skjölum LHM hér.