Fyrirspurn um miðlínur

Fyrirspurn kom um miðlínur á stígum til LHM. Fyrirspurninni var svarað um hæl. 

Fyrirspurnin:

Sæl verið þið.
Svo ég komi mér beint að efninu: Vitið þið til þess að það hafi verið rætt eða sé á dagskrá að merkja stíga þar sem er blönduð umferð gangandi og hjólandi, með brotinni miðlínu. T.d. eins og stíginn um Grafarvog og víðar þar sem eru stígar sem áður voru merktir með línu þar sem minnihluti stígsins var ætlaður hjólandi en meirihlutinn gangandi. Þetta gæti ýtt undir það að allir, líka gangandi haldi sig hægra megin. Mín tilfinning er að 99% hjólreiðamanna haldi sig hægra megin en alls ekki allir gangandi. Ég held að gömlu merkingarnar sem eru þó að mestu máðar af rugli fólk í ríminu, sérstaklega gangandi.
 
Ég hjóla amk 6 mánuði á ári daglega á stígum höfuðborgarsvæðisins frá Mosó og í bæinn og hef gert amk 10ár og þetta er eitt af því sem mér finnst að mætti bæta. Auðvitað hefur orðið bylting á stígakerfinu á 10-15 árum en víða eru slysagildrur.
Kær kveðja
Þráinn, áhugamaður um hjólreiðar.
 
Svar LHM:
Sæll Þráinn
Við höfum minnst á þetta nokkrum sinnum t.d. við starfsmenn Reykjavíkurborgar og í einverjum tilvikum sett þetta í texta. Um tíma lögðum við til í umsögn til umferðarlaga að það yrði skylda að vera hægra megin líka fyrir gangandi vegfarendur. Það náði aldrei fram að ganga og í síðustu umsögnum höfum við ekki haldið þessu á lofti. Við höfum einnig farið fram á að gömlu línurnar verði afmáðar og stígarnir merktir með boðmerki án línu. Í flestum tilvikum er búið að skipta um boðmerki en afstaða borgarinnar er að láta línurnar mást út með tíma og þeim hefur ekki verið haggað með það þrátt fyrir þá slysahættu sem þetta veldur.
 
Afstaða þeirra sem eru ekki fylgjandi því að merkja miðlínu er sú að gangandi vegfarendur eigi ekki að þurfa að upplifa sig í einhverskonar hraðbrautarumhverfi þar sem þeir eigi að halda sig öðru megin við línuna. Þetta er í sjálfu sér skiljanleg afstaða og endurspeglast í ákvæðum umferðarlaga um hjólandi og gangandi vegfarendur þar sem hjólandi eru gestir á göngustígum og gangstéttum. Staður reiðhjólsins er á götum skv. umferðarlögum og nú líka á sérstökum hjólreiðastígum eða hjólareinum á götu.
 
Nú er komin létt bifhjóli í flokki 1 á stíga og þrýstingur er frá sumum að leyfa létt bifhjól í flokki 2 og/eða að það verði lagðir sérstakir hraðhjólastígar milli hverfa og sveitarfélaga. Okkar afstaða eins og er er að hjólastígar verði lagðir víðar og að þeir stígar sem nú eru göngustígar verði tvöfaldaðir og hjólastígar verði lagðir við hliðina á þeim. Okkar afstaða er einnig að allir stígar sem eru stofnstígar eða hjólastígar verði hannaðir samkvæmt leiðbeiningum um gerð hjólastíga (https://www.ssh.is/images/stories/frettir/Honnun_fyrir_reidhjol_leidbeiningar_drog_01032018.m.pdf).
 
Því miður hafa margir stígar verið lagðir sem eru með annmarka og því miður er enn verið að leggja stíga sem ekki uppfylla leiðbeiningarnar fullkomlega. Það er eilífðarverkefni að reyna að hafa áhrif. Ef þú vilt taka þátt í því ertu velkomin að hafa samband og vera með okkur í liði.
kveðja
Árni Davíðsson
formaður
Landssamtök hjólreiðamanna

Þráinn Björnsson, fyrirspurn um miðlínur 

Svar LHM