Umsögn LHM um breytingar á umferðarlögum

Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) gerði umsögn um frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum 280. mál á 151. þingi.

 Umsögn LHM

Breyting á 94. gr. laganna, brot er varða sektum.

Tillagan í frumvarpinu hljóðar svona:

„Í stað tilvísananna „39.–41. gr., 42. gr.“ í 1. mgr. 94. gr. laganna kemur: 39.–42. gr., 1.–4. mgr. 43. gr.“ 

Frumvarpið leggur því til að leyft verði að sekta fyrir brot á 1.–4. mgr. 43. gr. Textinn í þeim greinum er svona:

43. gr. Undanþáguheimildir fyrir hjólreiðamenn.
- Heimilt er að hjóla á gangstétt, göngustíg eða göngugötu, enda valdi það ekki gangandi vegfarendum hættu eða óþægindum eða sveitarstjórn hefur ekki sérstaklega lagt bann við því. Ef hjólastígur er samhliða gangstétt eða göngustíg skal að jafnaði notast við hjólastíginn. Þó er í slíkum tilvikum heimilt að hjóla á gangstétt eða göngustíg ef fyllsta öryggis er gætt og ekki er hjólað hraðar en sem nemur eðlilegum gönguhraða.
- Hjólreiðamaður á gangstétt, göngustíg eða göngugötu skal víkja fyrir gangandi vegfarendum. Hann skal gæta ýtrustu varkárni og ekki hjóla hraðar en svo að hann geti vikið úr vegi fyrir gangandi vegfarendum sem eiga leið um. Hann skal gefa hljóðmerki þegar hann nálgast gangandi vegfarendur ef ætla má að þeir verði hans ekki varir.
- Ef hjólreiðamaður á gangstétt þverar akbraut skal hann gæta að því að hjóla eigi hraðar en sem nemur venjulegum gönguhraða. Sama á við um hjólreiðamann sem þverar akbraut á gangbraut.
- Á vegi þar sem leyfður hámarkshraði er ekki meiri en 30 km á klst. er hjólreiðamanni heimilt að hjóla á miðri akrein, enda gæti hann fyllsta öryggis og haldi hæfilegum hraða.
Eins og fram kemur í umsögninni leggja Landssamtök hjólreiðamanna til að sektarákvæði fyrir þessa ákveðnu grein umferðalaga verði frestað og málið skoðað betur.
 
Sömuleiðis gera samtökin tillögur að breytingu á nokkrum greinum umferðarlaga og eru þær tillögur raktar stuttlega að neðan. Röksemdir fyrir þessum breytingum má lesa í umsögninni.
 
Athugasemdir við 10 gr. og 43. gr. umferðarlaga.
Í þessum tveimur greinum núverandi umferðarlaga segir :
„Ekki er heimilt að hjóla á göngugötu hraðar en sem nemur eðlilegum gönguhraða.“ (10 gr.)
„Ef hjólastígur er samhliða gangstétt eða göngustíg skal að jafnaði notast við hjólastíginn. Þó er í slíkum tilvikum heimilt að hjóla á gangstétt eða göngustíg ef fyllsta öryggis er gætt og ekki er hjólað hraðar en sem nemur eðlilegum gönguhraða.“ (43. gr.)
 
LHM vill gera athugasemd við kröfuna um gönguhraða reiðhjóla í bessum tveimur greinum og leggja til sama hraða fyrir reiðhjól og fyrir hlaupandi í staðinn.
Tillaga: „hlaupahraða“ komi í stað „gönguhraða“ í 10. gr. og 43. gr.
 
Athugasemd við 4. mgr. 27. gr. umferðarlaga.
Núverandi 4. mgr. segir:
„Ökumaður sem nálgast gangbraut þar sem umferð er ekki stjórnað a f lögreglu eða með umferðarljósum skal aka þannig að það valdi ekki gangandi vegfaranda á gangbrautinni eða á leið út á hana hættu eða óþægindum. Skal ökumaður nema staðar, e f nauðsynlegt er, til að veita hinum gangandi færi á að komast yfir akbrautina.“
 
Lagt er til að 4. mgr. 27. gr. hefjist svona:
„Ökumaður sem nálgast gangbraut þar sem umferð er ekki stjórnað af lögreglu eða með umferðarljósum skal gæta að því að aka eigi hraðar en sem nemur venjulegum gönguhraða þannig að það valdi ekki gangandi vegfaranda á gangbrautinni eða á leið út á hana hættu eða óþægindum. “
 
Athugasemd við 5. mgr. 28. gr. umferðarlaga.
Núverandi 5. mgr. segir:
„Opna skal dyr ökutækis þannig að ekki valdi hættu eða óþarfa óþægindum. Sama á við þegar farið er í eða úr ökutæki, svo og við fermingu og affermingu.“
 
Lagt er til að 5. mgr. 28. hljóði svona:
„Opna skal dyr ökutækis þannig að ekki valdi hættu eða óþarfa óþægindum. Sama á við þegar farið er í eða úr ökutæki, svo og við fermingu og affermingu. Sérstaklega skal gæta að því að dyr opnist ekki í veg fyrir aðra vegfarendur. “
 
Athugasemd við 85. gr. umferðarlaga.
Stjórn LHM telur rétt að hafa inni heimild sveitarstjórna til gjaldtöku vegna negldra hjólbarða á vélknúnum ökutækjum.
Lagt er til eftirfarandi orðalag í nýrri 5. mgr. 85. gr. laganna:
„Sveitarstjórn er heimilt að ákveða gjald allt að 30.000 kr. vegna notkunar negldra hjólbarða á bifreiðum á nánar tilteknum svæðum, fyrir ákveðið tímabil eða ákveðin skipti, að höfðu samráði við Vegagerðina. Utan tímabils er notkun negldra hjólbarða á bifreiðum óheimil. “
 

Mál þetta hafði áður komið fram á samráðsgátt stjórnvalda og sendi LHM inn umsögn við það á því stígi líka. Sjá hér að neðan.

 Frumvarpið á samráðsgátt mál nr. 198/2020.

 Umsögn LHM um málið á samráðsgátt.