Umsögn um: Tillögu að nýju deiliskipulagi Ásbrautar

Kópavogur, 14. maí 2025

Umsögn um: Tillögu að nýju deiliskipulagi Ásbrautar (PDF)

Tillaga að nýju deiliskipulagi Ásbrautar:  https://skipulagsgatt.is/issues/2024/930  

Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) hafa skoðað „Vinnslutillaga í kynningu“ að nýju deiliskipulagi Ásbrautar á vinnslustigi.

Markmið með deiliskipulagsvinnunni er að endurhanna göturými Ásbrautar til að bæta stígakerfi og tryggja með samræmdum hætti örugga og greiða umferð gangandi og hjólandi vegfarenda í samræmi við aðalskipulag Kópavogsbæjar. Með deiliskipulaginu er núverandi byggðarmynstur fest í sessi og lagðar skipulagslegar forsendur fyrir vistlegri götumynd og öruggari göngu- og hjólaleiðum.

LHM er almennt hlynnt þeim hugmyndum sem sem koma fram í tillögunni. Með þeim skapast tækifæri til að auka öryggi hjólandi og gangandi umferðar og gera leið þeirra greiðari, skilvirkari og vistlegri.

Á þessu stigi í ferlinu vill LHM helst koma að tveimur almennum ábendingum: Annars vegar um nauðsyn þess að horfa á allar tegundir lausna við hönnun fyrir hjólreiðar sem samgöngumáta um Ásbraut og hins vegar um tengsl við önnur verkefni á Kársnesi og Fossvogi.

Hönnun fyrir hjólreiðar sem samgöngumáta

Um Ásbraut er almennt ekki þung umferð bílstjóra, hvorki mikil né hröð, enda er Ásbraut húsagata með 30 km/klst. hámarkshraða og bílum er ekki lagt í götunni. Hjólarein og hjólavísar, sem málaðir voru á götuna 2014, hafa dugað mjög vel.

Því er til mikils að vinna að leggja ekki að óþörfu út í kostnaðarsamar og óafturkræfar framkvæmdir (eins og mjög aðgreinda stíga og götu), sem í raun og veru væru mjög kostnaðarsamir innviðir fyrir bílstjóra svo þeir þurfi ekki að taka tillit til hjólreiðafólks, ef bæta má innviði fyrir hjólreiðar og öryggi hjólreiðafólks með öðrum hætti um Ásbraut. LHM hefur áður (bréf 7. júní 2022) bent á að það væri e.t.v. full mikið í lagt að leggja sérstakan hjólastíg um Ásbraut, þó þetta sé stofnleið hjólreiða, og vill gjarnan ítreka þá ábendingu nú.

Kanna ætti margvíslegar ódýrari og einfaldari hugmyndir, t.d. að bera saman við að vera áfram einungis með hjólreinar og hjólavísa um Ásbraut, skoða snið á hollenskum íbúðargötum þar sem þrengt er að bílum með hjólareinum sitthvoru megin, eða svokallaðar „hjólagötur“ sem er konsept sem er til í hönnunarleiðbeiningum fyrir hjólreiðar en er ekki enn í umferðarlögum eða reglugerð um umferðarmerki (en er samt notað í Elliðaárdal), sem er eitthvað sem þyrfti að bæta.

Varðandi hjólagötur vill LHM vísa í lið „Hjólagötur (mynd nr. 5)“ í

Opið bréf / áskorun til Samgöngustofu annars vegar og Vegagerðarinnar & annarra veghaldara hins vegar (einkum Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar) um betri merkingar fyrir bílstjóra um hjólreiðaumferð
https://www.facebook.com/groups/gerumbeturabendingar/posts/1980798812391892/

sem var sent Kópavogsbæ 8. september 2024. Í bréfinu var bent á að þessi hönnunarlausn gæti verið framtíðin fyrir Traðarland í Reykjavík og Ásbraut í Kópavogi, sem eru að mörgu leyti sambærilegar götur.

Í öllu falli væri áhugavert ef Reykjavíkurborg og Kópavogsbær stilltu saman strengi um samræmda hönnun fyrir götur eins og Traðarland og Ásbraut þannig að hjólandi og akandi sjái sömu hönnun á mismunandi stöðum á höfuðborgarsvæðinu og viti því fyrirfram hvernig beri að hegða sér og hvernig megi búast við því að aðrir hegði sér og bregðist við.


Tvístefnu hjólastígur norðan megin: Ef niðurstaðan verður eftir sem áður að leggja hjólastíga eftir Ásbraut þá væri skynsamlegt að bera núverandi tillögu, um einstefnuhjólastíga sitthvoru megin um Ásbraut, Hábraut og Hamraborg, saman við möguleikann að hafa tvístefnu hjólastíg um þessar götur. Þessi stígur er hluti af lengri samgöngustíg, sem er hluti af rauðri stofnleið í stofnhjólaneti höfuðborgarsvæðisins milli miðbæjar Hafnarfjarðar og Borgartúns í Reykjavík. Þessi stofnleið er að öðru leyti tvístefnustígar. Þessi stutti kafli í Ásbraut mun því skera sig út að þessu leyti. LHM mælir með því að heildarstígakerfið, milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, sé með samræmdri hönnun. Tvístefnu hjólastígur ætti að vera norðan megin Ásbrautar, en gæti verið austan eða vestan megin Hábrautar, og með sama hætti norðan eða sunnan megin Hamraborgar.

Kosturinn með tvístefnu hjólastíg væri að hann myndi þvera mun færri innkeyrslur í Ásbraut og það myndi aðeins þurfa tvær þveranir yfir götur; en einstefnustígarnir myndu þvera götur á 4 stöðum og einstefnustígurinn myndi þvera götur og innkeyrslur á 9 stöðum á niðurleið niður Ásbraut, sem er varhugavert. Hann myndi svo ýmist liggja fram hjá innkeyrslunni að Safnaðarheimilinu eða að Molanum eftir því hvort hann myndi liggja austan eða vestan Hábrautar. Viðkvæmasti staðurinn væri sennilega fram hjá innkeyrslunni í Molann og gæti því verið betra að vera vestan megin Hábrautar. Tvístefnustígur yrði að vera breiðari en 2,5 m meðfram Ásbraut vegna hraðamismunar upp og niður.

Hjólastígur milli húsa við Ásbraut og afreinar frá Hafnarfjarðarvegi: Önnur lega fyrir stíg sem vert væri að skoða, nú þegar brú yfir Kársnesbraut er fyrirhuguð, er stígur milli húsanna í Ásbraut og afreinar af Hafnarfjarðarvegi frá götunni Hamraborg austan við bílastæðahúsið við Molann og niður að nýrri hjólabrú yfir Kársnesbraut (1. mynd). Plássið virðist vera nægjanlegt fyrir stíg á þessari leið og þar væri aðeins ein þverun yfir götu og framhjá innkeyrslu í Molann.


 


1. mynd. Hugmynd um nýja legu hjólastígs milli húsa við Ásbraut og afreinar frá Hafnarfjarðarvegi.


Tengingar við aðra stíga í nágrenni: Huga þarf vel að hönnun tengingar neðst í götunni við Kársnesbraut því sú tenging verður óhjákvæmilega nokkuð brött en alls ekki er gefið að betra sé að setja hlykki á stíginn. Slík lausn gæti í staðinn búið til fleiri og alvarlegri vandamál, fall í sönduðum/hálum beygjum eða vesen með vetrarþjónustu, og hækkunin er að mörgu leyti leyst með aukinni notkun rafmagnsreiðhjóla.

Huga þarf að tengingu stíganna frá götunni Hamraborg í suður framhjá safnasvæðinu þótt það sé ekki hluti af þessu deiliskipulagi. Það fyrirkomulag sem er þar núna er óheppilegt, bratti mikill og hætta á samstuði við bílstjóra við litla hringtorgið og við gangandi fólk á safna- og leiksvæðinu.


Annað: Að öðru leyti gerir LHM ráð fyrir því að í hvívetna verði höfð hliðsjón af

  • HÖNNUNARLEIÐBEININGAR FYRIR HJÓLREIÐAR
  • Leiðbeiningar sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins og Vegagerðarinnar

(19.12.2019 eða nýrri útgáfu) og óskar eftir að fá tækifæri á seinni stigum til að rýna og senda inn athugasemdir ef við á, t.d. við deiliskipulag og verkhönnun.


Tengsl við önnur verkefni:

Í skipulagslýsingu fyrir Ásbraut var tíunduð tengsl við önnur verkefni, sjá bls. 9 í lýsingunni, á þessari rauðu lykilleið hjólreiða á höfuðborgarsvæðinu (svokallaðar stofnleiðir hjólreiða sem eru litakóðaðar). En sbr. kort á bls. 5 að þá eru fleiri mikilvægar tengingar og vill LHM helst nefna bláa stofnleið um suðurströnd Kársness og að Öldu, nýrri brú yfir Fossvog, sem svo tengist við hjólastíginn Sólarleið í Reykjavík (sem aftur tengist austan megin við hjólastíginn Bæjarleið og vestan megin við Þorragötu, Suðurgötu og Ægisíðu).

Hjólaleiðir þurfa að vera eindregnar, beinar, greiðar og öruggar og án (óþarfa) hæðarbreytinga eins og frekast er kostur. Þessir stígar upp á Hamraborgina; hjólastígar um Kópavogsháls (mál 583) og um Ásbraut (þetta mál hér 930); eru góð viðbót og munu t.d. gagnast vel hjólreiðafólki á rafmagnsreiðhjólum sem á leið til vinnu í Borgartúni, á Suðurlandsbraut eða austar, svo dæmi sé tekið, en henta síður hjólreiðafólki á venjulegum reiðhjólum sem eru á leið í Miðbæinn, Vatnsmýrina eða vestur í bæ.

Því vill LHM minna á nauðsyn þess að halda áfram með hjólastíg um sunnanvert Kársnes sem mun í framtíðinni tengjast brúnni Öldu yfir Fossvoginn. Sá hjólastígur þarf að þræða ströndina án hæðarbreytinga og fara þaðan yfir Fossvoginn á Öldu. Þessar hugmyndir hér í máli 930 um innviði fyrir hjólreiðar um Ásbraut, þótt góð viðbót sé, koma ekki í stað góðs hjólastígs meðfram suðurströnd Kársness.

Til mikils er að vinna fyrir grænar og virkar samgöngur, sem styðja við loftlagsmarkmið og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, sem og til þess að reyna að draga úr aukningu á bílaumferð, að hjólastígur meðfram suðurströnd Kársness hvetji til hjólreiða og tengist vel við núverandi og komandi hjólastíga og við Öldu.


Annað:


Gróður og skjólmyndun: Leggja þarf áherslu á gróður til skjólmyndunar. Við stíga ætti að gera ráð fyrir gróðri og trjám sem draga úr vindi og skapa skjól án þess að hindra stígsýn við gatna- og stígamót. 

Merking leiða: Gera þarf ráð fyrir merkingu göngu- og hjólastíga með leiðarmerkjum og gerum við ráð fyrir að gerð verði grein fyrir þeim í verkhönnun.


Virðingarfyllst
f.h. stjórnar Landssamtaka hjólreiðamanna
Erlendur S. Þorsteinsson
formaður

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.