Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2025-2040

Athugasemdir Landssamtaka hjólreiðamanna (LHM) við vinnslutillögu að aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2025-2040. (PDF)

Hafnarfjarðarkaupstaður skipulag

https://skipulagsgatt.is/issues/2025/1446 

Reykjavík 24. nóvember 2025


Aðalskipulag Hafnarfjarðar.


Hér á eftir fara athugasemdir Landssamtaka hjólreiðamanna (LHM) við vinnslutillögu að aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2025-2040.

Almenn umsögn

Hafnarfjörður er einn fallegasti bær landsins og elsti hluti bæjarins ber af flestum bæjum á Íslandi. Það gerir m.a. bæjarstæðið í hrauninu og sú gæfa að hraunið var ekki eyðilagt þegar bærinn byggðist. Framtíðarvöxtur bæjarins þarf að verða á forsendum náttúrulegs umhverfis. Hann þarf að vaxa inn í náttúrulegt umhverfi án þess að eyðileggja það.

LHM taka undir flest meginmarkmið aðalskipulags Hafnarfjarðar 2025-2040 í samgöngumálum þ.e., að styðja við fjölbreytta ferðamáta, draga úr neikvæðum áhrifum bílaumferðar, bæta umferðaröryggi, að hlutdeild almenningssamgangna í öllum ferðum verði a.m.k. 12% og hlutdeild göngu- og hjólreiða a.m.k. 30% og að tvinna skýrt saman byggð og samgöngur. Þá taka LHM undir áherslur og aðgerðir í samgöngum í kafla 15.4, til þess að ná fram ofangreindum markmiðum.

  • Samþætting byggðarþróunar og samgangna til að stytta vegalengdir og gera fólki þannig auðveldara um vik að nálgast þjónustu gangandi og hjólandi.
  • Uppbygging innviða fyrir hjólandi og gangandi, samkvæmt tillögum úr hjólreiðstefnu Hafnarfjarðar frá 2023.
  • Innleiðing bíla- og hjólastæðastefnu, til að tryggja betri landnotkun.
  • Kanna möguleika á sérakreinum fyrir aðrar strætóleiðir.
  • Styðja við uppbyggingu á hleðslustöðvum fyrir umhverfisvæna orkugjafa.
  • Flýta uppbyggingu Borgarlínu í Hafnarfirði í samvinnu við Betri samgöngur.
  • Flýta ákvarðanatöku varðandi lausn á Reykjanesbraut í samstarfi við Vegagerðina.
  • Greining á bílastæðum og notkun þeirra til að stuðla að betri samnýtingu og hefja gjaldtöku.
  • Styðja við innleiðingu deilibíla og deilihjóla.
  • Gerð þróunaráætlunar fyrir samgöngumiðstöð á Tjarnarvöllum.
  • Vinna áfram að öruggum gönguleiðum barna frá heimili að skóla.
  • Greining á vöruflutningum til og frá stórum atvinnusvæðum og hafnarsvæðum með það markmið að auka skilvirkni og tryggja umferðaröryggi.

Athugasemdir LHM

Bílaeign

Fram kemur á bls. 92 að bílaeign í Hafnarfirði er meiri en í öðrum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins eða 78 bílar á hverja 100 íbúa samanborið við 72 bíla í Kópavogi og 76 bíla í Reykjavík. Ekki kemur fram hvort þessar tölur eigi við bíla á skrá eða bíla í umferð. Þetta eru sennilega ekki réttar tölur ef þarna er átt við fólksbíla í umferð, sem er eðlileg tölfræði ef verið er að bera saman bílaeign milli staða. Þarna gæti verið um að ræða alla bíla á skrá eða jafnvel öll ökutæki á skrá sem gefur alls ekki rétta mynd ef ætlunin er að bera saman fólksbílaeign milli sveitarfélaga. Athuga þarf að fólksbílar í eigu bílaleiga ætti heldur ekki að telja með sem fólksbílaeign þótt bílaleigan sé með lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi. Hvað sem öðru líður ætti að vera alveg skýrt við hvað er miðað og geta ætti heimilda fyrir tölfræðinni. 

  • Almennt ætti að gefa upp fólksbílaeign sem fólksbíla í umferð í eigu annarra en bílaleiga. 

Ferðavenjur


Fram kemur á bls 92 að ferðavenjur í Hafnarfirði hafi verið mældar reglulega í ferðavenjukönnunum sem framkvæmdar hafa verið á höfuðborgarsvæðinu á síðustu árum. Ferðavenjur hafa lítið breyst undanfarinn áratug. Hlutfall bílferða hefur haldist í 78-79%, hlutfall strætóferða í 4-5%, hlutfall hjólandi í 3% og hlutfall gangandi verið 12-13%. Sjá mynd 15.3. 

Þessar upplýsingar, sem sennilega eru úr síðustu ferðavenjukönnun sem framkvæmd var (þarna mætti geta heimilda nákvæmar) eru nauðsynlegar en jafnframt ætti sveitarfélagið að afla nákvæmari upplýsinga um ferðavenjur eftir hverfum og grunnskólum og byggja á þeim upplýsingum í vinnu sem þarf að fara fram til að auka hlutdeild virkra ferðamáta. Nákvæm þekking á stöðunni er grunnur að virkri samgöngustefnu sveitarfélagsins. Virk samgöngustefna er stefna sem hrindir breytingum á ferðavenjum í framkvæmd. Til að hafa virka samgöngustefnu þarf ekki aðeins að huga að innviðum eins og stígum og hjólastæðum heldur líka að huga að félagslegum, efnahagslegum og sálrænum þáttum sem hafa áhrif á val á ferðamátum. Hafnarfjörður ætti að hafa samgöngusamninga og skattlausar samgöngugreiðslur fyrir sitt starfsfólk.

  • Virk samgöngustefna ætti að vera eitt af aðgerðum í samgöngum í aðalskipulaginu.
  • Samgöngusamningar og samgöngugreiðslur fyrir starfsfólk bæjarins ætti að vera eitt af aðgerðum í samgöngum í aðalskipulaginu.

Stígar

Gera þarf ráð fyrir göngu og hjólaleið, t.d. á útivistarstíg, frá Lambagjá eða yfir Sléttuhlíð að Heiðmerkurvegi í Garðabæ í samráði við Garðabæ.

Gera þarf ráð fyrir að stígar liggi í gegnum stór íþróttasvæði sem ella verða farartálmar fyrir göngu og hjólreiðar. Þar má t.d. nefna Kaplakrikasvæðið, akstursíþróttasvæði og golfvelli. Stór íþróttasvæði eiga ekki að vera farartálmar í vegi gangandi og hjólandi vegfarenda eins og sum íþróttasvæði eru í dag. Stór íþróttasvæði eru án bílaumferðar og meðfylgjandi mengunar og hávaða og eru að því leyti  ákjósanlegt umhverfi fyrir göngu og hjólreiðar.

  • Gera þarf ráð fyrir göngu og hjólastíg frá Lambagjá/Sléttuhlíð að Heiðmerkurvegi.
  • Gera þarf ráð fyrir stígum í gegnum stór íþróttasvæði.


Almenningssamgöngur

Í kafla 15.8 Almenningssamgöngur: Strætó og Borgarlínan kemur fram, að gert sé ráð fyrir Borgarlínunni auk tveggja strætóleiða G og P. Fram kemur að engar almenningssamgöngur verða um iðnaðar- og athafnasvæði á Hellunum. Gera þarf ráð fyrir alvöru almenningssamgöngum um þessi iðnaðar og athafnasvæði. Starfsmenn fyrirtækja þurfa að komast til vinnu með almenningssamgöngum og jafnframt má gera ráð fyrir að í þessum hverfum muni búa fjöldi fólks í óleyfisbúsetu í atvinnuhúsnæði. 

Það er reyndar ábyrgðarhluti að þessum íbúum í óleyfishúsnæði skuli hvergi vera getið í aðalskipulaginu. Hafnarfjörður hlýtur að bera ábyrgð á öllum sínum íbúum, líka þeim sem búa við slæmar aðstæður í óleyfi í atvinnuhúsnæði. Þetta fólk er látið vinna verstu störfin, oft án þess að fá greitt samkvæmt kjarasamningum og er síðan haft að féþúfu af óprúttnu fólki sem leigir því lélegt og jafnvel hættulegt húsnæði þar sem aðgengi að þjónustu og almenningssamgöngum er ekki gott.

  • Gera þarf ráð fyrir almenningssamgöngum í iðnaðar- og athafnasvæðum á Hellunum.
  • Aðalskipulagið þarf að fjalla um óleyfisbúsetu, stærð þessa vandamáls og hvernig sveitarfélagið ætlar að leysa það vandamál fyrir skipulagið og þá vanda þess fólks sem þar býr.


Bíla og hjólastæðastefna

Almennt ætti að gera ráð fyrir bílastæðahúsum í skipulagi þar sem er samnýting bílastæða, frekar en bílakjöllurum.

Í bílastæðastefnu ætti að fjalla um gjaldskyldu á bílastæðum. Gjaldskylda er besta leiðin til að stýra nýtingu bílastæða og til að koma í veg fyrir offjárfestingu í bílastæðum. Með gjaldskyldu er dregið úr sveiflum í nýtingu stæða þar sem margir breyta um ferðavenjur og ganga styttri vegalengdir þegar bílastæði kostar í enda ferðar og almenningssamgöngur verða líka meiri aðlaðandi kostur.

Töflur 5.1, 5.2 og 5.3 yfir bílastæðafjölda virðast ósveigjanlegar. Óljóst er hvort nokkrar athuganir liggja að baki þessum tölum. Nauðsynlegt er að gera athuganir á raunverulegri notkun bílastæða til grundvallar fjölda stæða. Tafla 5-1 yfir nýtingu bílastæða getur ekki verið rétt. Nýting bílastæða er örugglega í flestum tilvikum ekki svona mikil. Almennt er bílastæðafjöldi of mikil á flestum stöðum og full nýting þeirra er ekki nema í undantekningartilvikum og við sérstakar aðstæður.  

Fjöldi hjólastæða virðist í sumum tilvikum vanmetin t.d. í grunnskólum. Liggja athuganir til grundvallar þessum tölum? Val á ferðamátum er háð mjög mörgum þáttum. Ef sveitarfélagið er með virka samgöngustefnu þarf að gera ráð fyrir fleiri hjólastæðum í grunnskólum. Hjólastæði ættu helst að vera yfirbyggð eins og fram kemur í stefnunni og það ætti að vera hægt að læsa stelli reiðhjóla við þau, t.d. bogastæði.

Á svæðum með samnýtingu bílastæða ætti að reisa bílastæðahús frekar en bílakjallara.

  • Gjaldskylda ætti að vera meginregla fyrir opin bílastæði til að draga úr offjárfestingu í óþörfum bílastæðum.
  • Reglur um bílastæðafjölda ætti að byggja á raunverulegum athugunum og helst að miðast við líklega nýtingu ef gjaldskylda væri í stæðum.
  • Reglur um hjólastæðafjölda ætti að byggja á raunverulegum athugunum. Ef virk samgöngustefna leiðir til aukinnar hlutdeildar hjólreiða þarf að vera pláss á lóðum til að bæta við stæðum.

Virðingarfyllst 
Árni Davíðsson
varaformaður LHM

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.