Athugasemd vegna reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð.

Reykjavik 25. maí 2008

 Landssamtök hjólreiðamanna og Íslenski fjallahjólaklúbburinn vilja koma eftirfarandi athugasemd á framfæri vegna reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð.

Í 2. kafla, 14 gr. segir um hjólreiðar:

"Óheimilt er að hjóla á göngustígum eða utan vegar".  

Ofangreind félög hvetja til þess að þessu orðalagi verði breytt og í stað þess muni setningin hljóða svo:

Heimilt er að hjóla á göngustígum nema annað sé sérstaklega tekið fram. Óheimilt er að hjóla utan slóða og vega.  Einnig er heimilt að hjóla samkvæmt þeim undanþágum sem um vélknúin ökutæki gilda og eru talin upp í 15. gr. og 16. gr.

Í 2. kafla, 15 gr. segir um akstur vélknúinna ökutækja:

"Þrátt fyrir 1. mgr. er heimilt að aka á vélknúnum ökutækjum og vélsleðum innan þjóðgarðsins svo fremi sem jörð er snævi þakin og frosin".

Eftir tillögu að orðalagsbreytingu muni setningin hljóða svo:

Þrátt fyrir 1. mgr. er heimilt að aka á vélknúnum og óvélknúnum ökutækjum og vélsleðum innan þjóðgarðsins svo fremi sem jörð er snævi þakin og frosin.

Í 2. kafla, 16 gr. segir um akstur utan vega vegna tiltekinna starfa.

"Ef nauðsyn krefur er heimilt með leyfi viðkomandi þjóðgarðsvarðar að aka á vélnúnum ökutækjum utan vega í þjóðgarðinum vegna starfa..."

Eftir tillögu að orðalagsbreytingu muni setningin hljóða svo:

Ef nauðsyn krefur er heimilt með leyfi viðkomandi þjóðgarðsvarðar að aka á vélnúnum eða óvélknúnum ökutækjum utan vega í þjóðgarðinum vegna starfa...

 

Greinargerð

Óvélknúið reiðhjólið er líklega sjálfbærasta farartæki sem völ er á. Því er það fremur öfugsnúið að því séu settar hömlur þar sem menn ætla að gera út á sjálfbæra ferðaþjónustu. Reiðhjólið nýtist ekki aðeins sem farartæki heldur er það líka burðargrind farangurs sem sjálfbær ferðamaður hefur í ferðum sínum. Reiðhjól er ekki mótorhjól og því getur það ekki spænt upp eða eyðilagt göngustíga eða jarðmyndanir fremur en gönguskór. Því má ekki gleyma að reiðhjólið gæti verið ákaflega góður kostur fyrir landverði til að hafa eftirlit með göngustígum eða sem öryggistæki t.d. til að komast hratt að slösuðu fólki á göngustígum.

Að svo stöddu er ekki hægt að koma með dæmi um göngustíga á svæði fyrirhugaðs Vatnajökulsþjóðgarðs. Því verður að líta til annarra sambærilegra svæða á landinu til að geta útskýrt hvers vegna bann við hjólreiðum á göngustígum myndi fyrst og fremst takmarka möguleikana á sjálfbærri ferðaþjónustu.

Dæmi um göngustíga þar sem bann við hjólreiðum myndi aðeins takmarka möguleika á sjálfbærri ferðaþjónustu:

1.      dæmi: Göngustígar að Skógarkoti í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Eftir þeim stígum er vinsælt að fara um bæði gangandi og hjólandi. Allt bann við hjólreiðum þar myndi fækka möguleikum fólks til útivistar.

2.      dæmi: Í núverandi skilgreiningu reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð myndi gönguleið frá Loðmundarfirði yfir Hjálmardalsheiði niður í Seyðisfjörð teljast gönguleið. Þetta er ekki auðveld hjólaleið en ákaflega skemmtileg. Allt bann við hjólreiðum á svona leiðum  hvetti fólk til að fara á bílum t.d. inn í Loðmundarfjörð til þess eins að geta gengið Hjálmardalsheiði. Um leið þyrftu hjólreiðamenn að leggja á sig tugi ef ekki hundruð km krók vegna banns við hjólreiðum á göngustígnum um Hjálmardalsheiði.

3.      dæmi: Til er ferðamennska á reiðhjólum þar sem það er ekki kappsmál að stíga hjólið öllum stundum. Hjólið er því teymt mislangar leiðir og fremur notað til að bera farangur á slóðum þar sem hjólreiðar eru erfiðar eða ómögulegar, s.s. eftir gömlum reiðleiðum, fornum þjóðleiðum og kindagötum. Þessi tegund ferðamennska skilur ekki eftir sig skemmdir í landslagi. Því er mikilvægt að í tillögu um orðalagsbreytingu verði sagt: ...utan slóða og vega.

Dæmi um göngustíga þar sem hjólreiðafélögin geta fallist á bann við hjólreiðum eru t.d. Dimmuborgir í Mývatnssveit.  Einnig á vissum bröttum gönguleiðum í Skaftafelli þar sem slysahætta gæti skapast fyrir gangandi vegfarendur. Ekki er þó þörf á að banna hjólreiðar á þeim öllum því þar eru aðrir stígar nokkuð víðir og langir sem auðveldlega taka við mikilli umferð.

 

Kær kveðja, með von um góð viðbrögð,

Magnus Bergsson Landssamtök hjólreiðamanna

Morten Lange Landssamtök hjólreiðamanna

Pétur Þór Ragnarsson Íslenska fjallahjólaklúbbnum

 

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.