Tölvupóstur sendur á Framkvæmdasvið og Umhverfsisvið Reykjavíkurborgar vegna 1+2 stíga


Efni: Umferðaröryggi á göngustígum

Góðan dag

Í haust gekk Reykjavíkurborg í það verk að mála óbrotna línu á marga göngustíga borgarinnar til að skilja að gangandi og hjólandi vegfarendur (svonefndir "1+2 stígar").
Vegna óskýrra umferðarreglna telja Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) þessa óbrotnu linu aðeins til þess fallna að valda slysahættu. Meðan hjólreiðafólk þarf að deila þessum mjóu gangstéttum með gangandi vegfarendum er mikilvægt að á göngustígunum ríki sama ákveðna regla og almennt gildir í umferðinni, þ.e. hægriregla.

Nánari upplýsingar eru í viðhengi. (sjá neðar)

Sjá einnig: Athugasemd við umferðaröryggisáætlun 

LHM hvetja Reykjavíkurborg til að mála yfir ofangreindar linur eins fljótt og auðið er svo að gangandi og hjólandi vegfarendur geti fylgt almennri hægri reglu.

Bréf þetta er sent á eftirtalda aðila:

Framkvæmdasvið: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Hrólf Jónsson sviðstjóra Framkvæmdasviðs
Ólaf Bjarnason aðstoðarsviðstjóra
Sighvat Arnarsson skrifstofustjóra

Umhverfissvið: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Orri Sigurðsson sviðsstjóri Umhverfissviðs


Landssamtök hjólreiðamanna óska eftir svari við þessu bréfi.


Með góðri kveðju í von um viðbrögð


F.h. Landssamtaka hjólreiðamanna

Magnús Bergsson


Viðhengi:

Reykjavík 15. nóvember 2007

Efni:

Aðgreining gangandi og hjólandi vegfarenda á göngustígum (gangstéttum) með óbrotinni línu. ("1+2 stígar")

Á árunum 1994-95 var sú ákvörðun tekin hjá Umferðarnefnd Reykjavíkur í samráði við dómsmálaráðuneytið að merkja hjólarein á göngustígum, svo að til urðu svokallaðir "1+2 - stígar". Rökin fyrir þessari ákvörðun voru þau, að í ljósi þess að hjólreiðamenn ættu að hjóla í einfaldri röð á akbrautum þætti eðlilegt að þeir gerðu það líka á göngustígum borgarinnar.

Fljótlega kom í ljós, að hjólarein á göngustígum bætti ekki umferðaröryggi, þó að merkt væri sem slík.

Hinn 30. október 2003 báðu Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) dómsmálaráðuneytið um opinberar umferðarreglur á þessum 1+2 - stígum svo að réttarstaða vegfarenda væri skýr. Dómsmálaráðuneytið vísaði því máli frá sér með fáum orðum í bréfi og kvað málið vera á ábyrgð Reykjavíkurborgar.

Í framhaldi þessarar afgreiðslu ráðuneytis dómsmála fóru LHM fram á það í tölvupósti við Reykjavíkurborg, að settar yrðu skýrar opinberar umferðarreglur á göngustígum borgarinnar.

Reykjavíkurborg lét ekki svo lítið að svara erindinu.

Eftir að LHM ræddu málin nánar innan samtakanna var gerð athugasemd við Umferðaröryggisáætlun

Þar kemur fram sú skoðun samtakanna, að besta lausnin væri sú að sleppa því með öllu að skipta 1+2 - stígum milli hjólreiðafólks og gangandi fólks, þar sem breidd stíganna væri ónóg og byði ekki upp á skiptingu þeirra milli gangandi og hjólandi vegfarenda.

Landssamtökin báru þetta mál upp á fundi með forsvarsmönnum Framkvæmdasviðs borgarinnar 16. desember 2006 og afhentu þá ofangreinda "Athugasemd við umferðaröryggisáætlun".

Ekki hefur enn borist svar við athugasemd Landssamtakanna fremur en áður.

Reykjavíkurborg virðist svo endanlega hafa daufheyrst við beiðni Landssamtakanna með því að endurmerkja alla 1+2 - stíga borgarinnar fyrir síðustu Samgönguviku auk þess sem nokkrir fleiri göngustígar voru merktir til viðbótar og gerðir þar með að 1+2 - stígum

Óljósar umferðarreglur = minnkað umferðaröryggi

Erfitt er að framfylgja hefðbundnum umferðarreglum á göngustígum þar sem eru margs kyns vegfarendur: Hundar, lausir og í bandi, göngufólk, hlauparar, skokkarar, börn, eldri borgarar, fólk með barnavagna, á línuskautum og á reiðhjólum. Reynsla sýnir, að einungis lítill hluti allra notenda göngustíganna hugsa um hraðari umferð en umferð gangandi vegfarenda. Hraði umferðarinnar er hins vegar, eins og að líkum lætur, mismikill. Reynslan hefur því líka sýnt að 1+2 - stígar hafa ekki bætt öryggi vegfarenda, því að á þeim ríkja almennt ekki neinar almennar eða skýrar umferðarreglur.

Dæmi um óskráðar umferðarreglur á göngustígum borgarinnar:

# Þegar hjólarein er ekki afmörkuð á göngustíg ríkir hefðbundin hægriregla og varúðarregla (eins og á akvegum).

# Ef hjólareinin er vinstra megin í ferðastefnu þarf að taka fram úr hægra megin en vinstra megin ef gangandi vegfaranda er mætt. Hjólreiðamenn geta ekki mæst á hjólareininni. Ef hjólreiðamaður mætir eða fer fram úr öðrum hjólreiðamanni þarf hann að víkja til hægri út á göngustíginn sem skapar óvissa réttarstöðu fyrir hjólreiðamanninn ef slys verða.

# Þegar hjólareinin er hægra megin í ferðastefnu þá á hjólreiðamaður ekki að víkja fyrir umferð sem kemur á móti, heldur halda sig sem lengst til hægri á stígnum. Hann þarf hins vegar að víkja til vinstri út á göngustíginn þegar taka þarf fram úr öðrum hjólreiðamanni.

# Á sama stígnum getur hjólareinin stundum verið hægra megin og stundum vinstra megin og þess á milli er engin hjólarein eins og sjá má á Fossvogsstígnum. Ástandið getur því verið mjög ruglingslegt eða valdið öryggisleysi og sérstaklega meðan ekki hafa verið gefnar út neinar sérstakar umferðarreglur á stígum sem þessum.

# Á öðrum stígum getur hjólareinin birst og horfið eins og meðfram Sæbrautinni. Hjólreiðamenn þurfa því ýmist að fara fram úr gangandi eða hjólandi vinstra- eða hægra megin, allt eftir því hvort línan er til staðar eða ekki. Þá er heldur ekki sama hvort gangandi eða hjólandi umferð er mætt.

# Þegar snjór liggur yfir stígum og merkingar huldar, ríkja óljósar umferðarreglur, enda ekki venjan að þar ríki staðfestar umferðarreglur. Þeir sem muna hvorum megin hjólareinin er gætu verið á "röngum" stað í huga þessa hjólreiðamanns sem þeir mæta og ætlar að fylga hægri reglunni.

# Svo að vægt sé til orða tekið orkar það tvímælis að merkja aðskilnaðarlínu með óbrotinni línu því að ljóst er, að tveir hjólreiðamenn geta ekki mæst á því þrönga svæði sem þeim er úthlutað. Það er lögbrot að fara yfir óbrotna linu.

# Ef slys verður, er skaðabótaskylda afar óljós og hætta á að hún verði dæmd eftir mismunandi sjónarmiðum þeirra, sem um málið fjalla. Tryggingafélög dæma alltaf fyrst - væntanlega oftar en ekki sér í hag

# Þau sveitafélög sem merkt hafa stíga með 1+2 - línu hafa aldrei gefið út sérstakar umferðarreglur sem gilda á þessum stígum. Þau hafa hvorki haft umferðaröryggi í huga né heldur haft samráð við hagsmunaðaila.

Leiðir til að bæta umferðaröryggi vegfarenda á göngustígum

Landssamtök hjólreiðamanna krefjast þess að 1+2 - göngustígar verði lagðir niður og málað verði yfir þær aðgreiningarlinur, sem nú eru á stígum borgarinnar.

Mikilvægt er, að borgin lýsi því yfir og auglýsi með áberandi hætti að á stígunum ríki hefðbundin hægriregla fyrir alla umferð, á meðan ekki hafa verið lagðar sérstakar hjólreiðabrautir, enda er ljóst, að þar munu líka gilda almennar umferðarreglur.

Bréf þetta er sent á eftirtalda aðila:

Framkvæmdasvið: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Hrólf Jónsson sviðstjóra Framkvæmdasviðs

Ólaf Bjarnason aðstoðarsviðstjóra

Sighvat Arnarsson skrifstofustjóra

Umhverfissvið: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Orri Sigurðsson sviðsstjóri

Landssamtök hjólreiðamanna

http://hjol.org

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.