Bréf til sveitarfélaga vegna 2+1 stígamerkinga

Landssamtök hjólreiðamanna sendi öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu bréf haustið 2013 vegna 2+1 metra stígamerkinga á stígum. Það var gert vegna þess að tvö af sveitarfélögunum hafa nýlega tekið upp þessar merkingar nú þegar Reykjavíkurborg er hætt að merkja stígana með þessum hætti. Þá var bent á þau atriði sem sérstaklega átti við hvert sveitarfélag.

Minnt var á bréf LHM til sveitarfélaganna þar sem óskað var eftir því að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu noti öll sömu leiðbeiningar um hönnun fyrir reiðhjól en „finni ekki upp hjólið“ sitt í hvoru lagi.[1]

Upphaflega voru 2m+1m stígar merktir í Reykjavík en borgin hætti að merkja göngustíga með þeim hætti fyrir nokkrum árum enda kom í ljós að þetta olli slysahættu og er LHM kunnugt um slys sem hafa orðið útaf óvissu, sem þessar merkingar hafa skapað á stígunum. Línan virðist nánast hafa töfra áhrif á suma vegfarendur. Kannski má sjá áhrif þess í þessu myndbandi hér.  Í stað einfaldrar reglu um hægri umferð og framúrakstur vinstra megin eru menn ýmist hægra eða vinstra megin eftir því hvoru megin línan er máluð og í hvora áttina menn fara. Við hvert blindhorn og hverja blindhæð geta menn búist við að umferð komi á móti öfugu megin við aksturstefnu. Þessu má líkja við að ýmist gilti hægri eða vinstri umferð á sömu götunni eftir því hvort menn eru að fara í suður eða norður! Eins metra ræman sem hjólandi vegfarendum er ætluð er allt of mjó fyrir umferð úr gagnstæðum áttum og þá má ekki fara yfir heilrenda línu samkvæmt umferðarlögum. Skipting stíga með línu hvetur einnig til þess að of hratt sé hjólað miðað við aðstæður því hún skapar þá tilfinningu að umferð hjólandi og gangandi sé aðskilin og að hvor um sig haldi sig á sínum hluta á stígnum, sem ekki er raunin á of mjóum stíg. Til að svona skipting virki þarf stígur að vera að ákveðinni breidd eins og nánar er vikið að neðan. Ennfremur er í leiðbeiningum og myndböndum Samgöngustofu miðað við hægri umferð á stígunum.[2]

Bent var á að þessi merking uppfyllir ekki íslenskar reglur og leiðbeiningar. Samkvæmt reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra nr. 289/1995[3] þurfa stígar sem skipt er með boðmerkjum að vera nógu breiðir. Samkvæmt veghönnunarreglum Vegagerðar ríkisins[4] er lágmarksbreidd sérstakra tvíátta hjólreiðastíga 2,0 m. en 2,5 m ef þeir eru aðgreindir til hliðar við göngustíga. Samkvæmt leiðbeiningum um hönnun fyrir reiðhjól[1] þurfa tvíátta stígar fyrir hjólandi að vera 2,5 m að breidd. Þessi 1 m breiða ræma fyrir hjólandi uppfyllir greinilega ekki þessar kröfur.

Meðan umferð réttlætir ekki gerð sérstakra stíga fyrir hjólandi ætti að gilda reglan um hægri umferð á stígunum og fara ætti framúr vinstra megin og er það öruggara í alla staði heldur en 2m+1m skipting stíga. LHM hefur gefið út leiðbeiningar fyrir hjólandi vegfarendur[5] og er markmið þeirra að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núníngi milli hjólandi og annara vegfaranda og hvetja til tillitsemi. Æskilegt er að sveitarfélagið kynni þessar reglur fyrir íbúum sínum. Þess má geta að um 62% íbúa höfuðborgarsvæðisins hjólar yfir árið samkvæmt ferðavenjukönnun 2011 og er því meirihluti íbúa að hjóla um stíga, gangstéttir og götur sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.


[1] Hönnun fyrir reiðhjól. Leiðbeiningar júní 2012. EFLA verkfræðistofa fyrir Reykjavíkurborg. http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/umhverfissvid/myndir/skyrlsur/Leidbeiningar_honnun_hjol.pdf

[2] Myndbönd Samgöngustofu: https://www.youtube.com/watch?v=NJGJwvumuJo, https://www.youtube.com/watch?v=PpAoSAqow9E, https://www.youtube.com/watch?v=Fo-X7dAzPGI

[3] Reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra. nr. 289/1995. http://www.reglugerd.is/interpro/dkm/WebGuard.nsf/key2/289-1995

[4] Veghönnunarreglur. 02 Þversnið. Vegagerðin 10.01.2011. http://www.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/VhRg02_THversnid/$file/VhRg02_Thversnid_2011.pdf

[5] Leiðbeiningar LHM fyrir hjólandi. 2. útgáfa. http://lhm.is/lhm/frettir/884-leidbeiningar-lhm-2-utgafa


Bréfin og svör sveitarfélaganna.

Sveitarfélag Bréf LHM Svör sveitarfélags
Reykjavík Ekkert svar borist
Kópavogur
Hafnarfjörður
Garðabær Ekkert svar borist
Mosfellsbær
Seltjarnarnes Ekkert svar borist

 

Eins og sjá má á svörum sveitarfélaganna taka þau sveitarfélög sem svara erindinu vel í það og má skilja að þau lofa að merkja ekki stíga með 2+1 m merkingum. Hafnarfjörður er eitt  þeirra sveitarfélaga sem hefur notað 2+1 m merkingu en en Umhverfis og framkvæmdaráð Hafnarfjarðar þakkar bréfið og tekur undir ábendingar LHM.

Það vekur líka óneitanlega athygli að þau sveitarfélög sem svara ekki erindinu hafa notað 2+1 merkingar á stíga sína.