Tvær hjólabrautir opnar í Skálafelli

bikepark-facebookBúið er að leggja tvær hjólabrautir í Skálafelli og laga stólalyftuna þannig að ekkert mál er að koma  með hjól, fara upp með stólalyftunni og hjóla síðan niður af fjallinu.

 

 

Tvær hjólabrautir opnar í Skálafelli

Nýtt hjólasvæði hefur verið opnað í Skálafelli. Um er að ræða braut sem er hátt í þrír kílómetrar á lengd með 350 metra fallhæð. Sérhönnuð braut í ^allabrun þannig gerð að hver sem er getur hjólað niður hana með góðum móti.

Framkvæmdir hafa að undanförnu staðið yfir í Skálafelli og er nú búið að leggja tvær hjólabrautir á fjallinu, svokallaðar „downhill" hjólabrautir. Gunnar Kristinn Björgvinsson, rekstrarstjóri í Skálafelli, segir að nýjan hraðabreyti hafi þurft að setja í lyftuna til að geta hægt á lyftunni þannig að það hentaði hjólafólki því að það sé allt öðruvísi að fara í lyftuna í snjólausu en í snjó.

„Viðskiptavinir geta nú mætt með hjólin sín, farið upp með stólalyftunni og hjólað niður af fjallinu. Göngufólk getur líka tekið lyftuna, til dæmis ef það vill fara í útsýnisferð eða labba af Skálafelli yfir á Esjuna," segir hann.

Stök ferð á 5OO kall

Brautirnar tvær eru miskrefjandi. Gunnar segir að lengri leiðin sé mjög létt og hugsuð fyrir alla, jafnt byrjendur sem lengra komna. Styttri brautin er hinsvegar erfiðari og meira krefjandi. Opið er í Skálafelli allar helgar frá 12-16 og er hægt kaupa staka ferð á 500 krónur eða dagsferð á 2.000 krónur.

Fyrir þá sem aldrei hafa farið á hjóli niður hjólabraut á fjalli útskýrir Gunnar að ferðin upp með lyftunni taki um 10 mínútur og svo geti óvanir búist við að vera um hálftíma niður, það fari þó eftir því hve hratt sé farið. „Þeir hröðustu eru að fara niður brattari brautina á tíu mínútum," segir hann.

Óvanir eru velkomnir

Borgarbúar geta fjölmennt í hjólabrekkuna í Skálafelli og þurfa ekkert að vera vanir fjallahjólum. Klassísk fjallahjól, sem flestir eiga og hjóla á í borginni, virka vel í brekkunni. „Þetta er alls ekkert bara fyrir keppnishjól. Það er um að gera að koma og prófa. Þó að það séu pallar sem menn geta stokkið á þá eru alltaf leiðir framhjá hindrunum. Fólk velur sér hvað það tekur mikið á og hefur þetta erfitt," segir Gunnar og bendir á að ekki þurfi einu sinni að hafa hjól með í för. Göngumenn séu líka velkomnir í lyftuna. „Þetta er opið öllum."

Lyftan í Skálafelli er í gangi frá hádegi til fjögur um helgar og er hægt að setjast í hana hvenær sem er á þeim tíma. Lyftan er stöðugt á ferðinni og Gunnar segir að yfirleitt sé engin biðröð. Óvanir þurfi ekki að hafa áhyggjur af að flækjast
fyrir. „Þeir sem eru grimmastir í þessu fara hraðar og þeir fara alltaf erfiðari brautina. Það hefur aldrei verið neitt vandamál," segir hann og tekur fram að í fyrra hafi fólk á aldrinum 8-88 ára farið niður hjólabrautina.

Vaxandi sport

„Sá yngsti var sex ára og hann var ekki í neinum vandræðum, hann fór bara hægar. Þetta er aldrei neitt vandamál. Þetta er bara alveg eins og á skíðunum, fólk verður að taka tillit til hvers annars, bæði þar sem farið er hægar og hraðar. Það þarf enginn að óttast að mæta þarna og fá að tilfinninguna að bann sé að þvælast fyrir. Þetta er útivistarsport þar sem hver fer á sínum hraða," útskýrir hann.

Framkvæmdirnar við hjólagarðinn í Skálafelli hófust í fyrra þegar fyrsta brautin var lögð. Nú hefur annarri braut verið bætt við. Breytingarnar nú, lagning brautarinnar og breyting á mótor og hraða, kostar tvær til þrjár milljónir. „Vonandi verður aðsóknin til þess að skila okkur einhverju upp í kostnað," segir hann.

Hjólagarðurinn er opinn um helgar í sumar. Um síðustu helgi var prufuopnun og gekk ágætlega. „Við vonum að það verði vaxandi aðsókn, ekki síst þegar almenningur áttar sig á að þetta er fyrir alla, ekki bara keppendur. Hjólreiðar eru vaxandi sport á Íslandi í dag, það hefur ekki farið framhjá neinum og þessi garður er kærkomin viðbót við þá flóru."


Uppruni: Reykjavík vikublað 9. júlí 2011
Mynd af facebook úr tengdri frétt frá opnun 2010 - sjá dálk til hliðar

 


Sjá einnig frétt á Visir.is:

Hjólreiðavangur opnar í Skálafelli

Skálafell Bike Park verður opnað um helgina en um er að ræða hjólreiðavang að erlendri fyrirmynd, þar sem hægt er að taka hjólið með sér í lyftu upp fjallið og hjóla svo niðu
Það er Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur sem stendur að rekstrinum.

Bike Park var opnað seinni part sumars í fyrra og var þá í boði ein braut, alls 2,3 kílómetra löng, með um 220 m fallhæð.  Nú hefur verið bætt við annarri braut með sömu fallhæð en 3 kílómetrar að lengd.  Sú braut hentar öllum, byrjendum sem og lengra komnum.

Á neðri hluta svæðisins er einnig boðið upp á Dirt-Jump og BMX stökkpalla. Þá er kominn nýr mótor í lyftuna svo hún er bæði snarpari og öruggari.

Til viðbótar stendur til að kortleggja og lagfæra ýmsa slóða sem liggja í átt frá svæðinu, en frá Skálafelli má hæglega hjóla niður í Kollafjörð eftir Esjurótum, yfir í Heiðmörk eftir gamla Kóngsvegi, í Kjós yfir Svínaskarð, á Þingvelli og alla leið yfir á Nesjavelli svo eitthvað sé nefnt.