Hjólreiðamenn vilja ekki hjálmaskyldu

„Reiðhjól eru öruggasta faratæki sem völ er á í borgarumferð á Íslandi,“ segir Páll Guðjónsson sem situr í laganefnd Landsamtaka hjólreiðarmanna. „Hér á landi hefur hjólreiðarmaður ekki látist í umferðinni í tólf ár. Þrátt fyrir það er sífellt verið að senda þau skilaboð að hjólreiðar séu hættulegar,“ segir Páll.

Samtökin eru ósátt við rúmar heimildir innanríkisráðherra í frumvarpi að nýjum umferðarlögum sem eru til umfjöllunar í samgöngunefnd. Samkvæmt þeim mun ráðherra hafa heimild til að skylda alla reiðhjólamenn til að nota hjálma, endurskinsvesti eða hvern þann öryggisbúnað sem ráðherra telur æskilegan.

„Það er einfaldlega verið að ráðast öfugum megin á vandan með því að krefjast þess að reiðhjólamenn verji sig gegn því að keyrt sé á þá í stað þess að gripið sé til aðgerða sem beinast að orsakavaldinum,“ segir Páll og bætir við að engin haldbær rök séu sett fram fyrir kostum þess að sett verði bann við reiðhjólanotkun án hjálma. Hann segir þetta vera dæmi um að ábyrgðinni sé ýtt yfir á fórnarlambið. Reynslan sýni að hjálmaskylda fækki ekki slysum.  „Hvorki ég né aðrir hjólreiðarmenn eru á móti hjálmanotkun en þar sem hjálmaskylda hefur verið sett á hefur hún ekki dregið úr alvarlegum höfuðáverkum en alltaf dregið úr notkun reiðhjóla.
Hjálmaskylda fælir fólk frá hjólreiðum

Hjálmaskylda var nýlega felld úr gildi Mexíkóborg og að hluta í Ísrael þar sem hún þótti ekki skila tilætluðum árangri. Þá lagðist vegagerðin í Noregi gegn áformum um hjálmaskyldu barna vegna röksemda frá Transportøkonomisk institutt í Osĺó sem taldi rétt að hvetja til hjálmanotkunar en að hjálmaskylda væri líkleg til að fækka hjólreiðarmönnum, auka áhættuhegðun og hafa neikvæð áhrif á lýðheilsu umfram bætt öryggi.

Í stefnu Landssamtaka hjólreiðamanna kemur fram að samtökin telji að fólk eigi að ráða því sjálft hvort það noti hjálma. Í umsögn félagsins vegna nýrra laga segir meðal annars; „Hagsmunasamtök hjólreiðamanna, ekki bara á Íslandi heldur um alla Evrópu hafa lagst gegn lagasetningum sem banna hjólreiðar án hlífðarhjálma og eða án endurskinsvesta.“  Þá segir í umsögn félagsins að lagasetningar sem takmarki frelsi einstaklinga verði að setja með langtímahagsmuni samfélagsins í huga. LHM telur skyldu við hjálmanotkun ekki uppfylla þau skilyrði. „Við höfum farið yfir reynslu annarra þjóða sem hafa reynt slíka löggjöf. Reynslan er alltaf neikvæð þegar horft er heildstætt á málin. Þegar upp er staðið eru það auknar hjólreiðar sem auka öryggi einstakra hjólreiðamanna og hefur notkun hjólreiðahjálma lítil áhrif til eða frá.“


Uppruni: smugan.is 12. ágúst 2011
http://smugan.is/2011/08/hjolreidarmenn-vilja-ekki-hjalmaskyldu/