Frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 77/2019, smáfarartæki 923 mál - 154 þingi

Umsögn LHM.

Frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 77/2019. Mál nr. 923 á 154. þingi: https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/154/923/?ltg=154&mnr=923

Smáfarartæki skilgreind sem sérstakur flokkur.

LHM eru mjög hlynnt þeirri breytingu að smáfarartæki verði skilgreind sérstaklega í umferðarlögum undir sérstökum tölulið í 3. gr. laganna. Skynsamlegt er að litlum farartækjum; það er reiðhjólum, rafmagnsreiðhjólum, léttum bifhjólum í flokki I og smáfarartækjum; verði skipt í tvo flokka:

  • Virk/aktív farartæki: Hefðbundinn reiðhjól og (pedal-assist) rafmagnsreiðhjól.
  • Óvirk/passív farartæki: Létt bifhjól í flokki I og smáfarartæki (rafskútur).

LHM telur því eðlilegt að reglur um smáfarartæki (rafskútur) séu þær sömu eða taki að miklu leyti mið af núverandi reglum um létt bifhjól í flokki I.

Smáfarartæki eru öll vélknúin og gætu sem best heyrt undir öll sömu lagaákvæði og létt bifhjól í flokki I. Þetta eru allt farartæki þar sem ökumaður ýtir á takka og brunar af stað.

LHM vill benda á að í frumvarpinu er lagt til 13 ára aldurstakmark á smáfarartæki en annars vegar er það núgildandi aldurstakmark á léttum bifhjólum í flokki I og hins vegar er 13 ára aldurstakmark ekki að öðru leyti í núverandi umferðarlögum. Því virðist sem að frekar hafi verið stefnt að því að leggja að jöfnu létt bifhjól í flokki I og smáfarartæki.

Eina bitastæða lagagreinin, sem myndi gilda um smáfarartæki skv. þessu frumvarpi en gildir ekki um létt bifhjól í flokki I, er að lagt er til að smáfarartæki mega ekki vera á akbraut þar sem hámarkshraði er meiri en 30 km/klst. LHM telur óþarfa að setja þessa sérreglu um smáfarartæki. Smáfarartæki geta líkt og bifhjól og reiðhjól verið á akbraut þar sem leyfður hámarkshraði er meiri en 30 km/klst.

Auk þess vill LHM benda á að hámarkshraði í þéttbýli er allskonar og það væri því mjög mismunandi hvort að smáfarartæki yrðu leyfð á götum innanbæjar jafnvel þótt að umferðarmynstur væri í raun og veru það sama:

Ýmis sveitarfélög eru enn með 35 km/klst. hámarkshraða og rafskútur væru því ekki heimilar á götum þar. Sá hraði var á Ísafirði til 2013 en var þá lækkaður í 30, Stykkishólmur lækkaði í 30 eftir gildistöku núverandi umferðarlaga, Fjallabyggð hækkaði hann í 40,  og það er enn 35 á Grundarfirði svo nokkur dæmi séu tekin.

Í mörgum smærri sveitarfélögum eru ekki endilega gangstígar eða gangstéttir alls staðar og það er alla jafna róleg umferð. Mörg þeirra eru samt formlega með 50 km/klst. hámarkshraða því það er sjálfgildið í þéttbýli skv. 2. mgr. 37. gr. í núverandi lögum og þau sveitarfélög hafa ekki útbúið umferðaröryggisáætlanir eða gert aðrar ráðstafanir til að ákveða sjálf annan hámarkshraða. Í því samhengi má nefna að það mætti breyta þessu sjálfgildi í 30 km/klst og hefur ítrekað verið lagt fram frumvarp um það efni.

Einnig er hreyfing hjá stærri sveitarfélögum að færa fleiri götur úr 50 km/klst. hámarkshraða í 40 km/klst. hámarkshraða, núna seinast Kópavogsbær og Hafnarfjarðarbær þegar þessi umsögn er rituð – en til samanburðar þá er hámarkshönnunarhraði hjólastíga 40 km/klst.

Það er vel þekkt að töluverður hluti slysa á rafskútum verða vegna slæmra innviða. Vegna ósléttra, jafnvel brotinna, gangstétta og vegna þess að ökumenn rafskúta þurfa reglulega að taka sveigjur og beygjur til að komast yfir á gangbrautum; en rafskútur eru miklu óstöðugri farartæki en reiðhjól t.d.  vegna smæðar dekkja og vegna mjórra stýris. Að leyfa rafskútur á götum myndi leiða til þess að ökumenn þeirra séu oftar að keyra á betra yfirborði og að keyra beinni leið.

Að öllu ofangreindu virtu leggur LHM því til að ákvæði um smáfarartæki verði frekar í 46. gr. og 61. gr. um létt bifhjól í flokki I (heldur en í 42., 43. og 44. grein um reiðhjól).

Núverandi 46. gr. „Sérreglur um akstur léttra bifhjóla í flokki I“ verði að „Sérreglur um akstur léttra bifhjóla í flokki I og smáfarartækja“ og núverandi 61. gr. „Stjórnendur dráttarvéla, vinnuvéla, léttra bifhjóla og torfærutækja.“ verði að „Stjórnendur dráttarvéla, vinnuvéla, léttra bifhjóla, smáfarartækja og torfærutækja.“

og breytingarnar sem eru í frumvarpinu verði settar í 46. og 61. gr. eins og við á.

Einkum og sér í lagi breytist þá tillaga um

„Ákvæði laganna um reiðhjól og hjólreiðamann eiga einnig við um smáfarartæki og ökumann þess nema annað sé tekið fram.“

í

„Ákvæði laganna um létt bifhjól í flokki I og ökumann þess eiga einnig við um smáfarartæki og ökumann þess nema annað sé tekið fram.“

og allar reglur yrði samræmdar á milli léttra bifhjóla í flokki I annars vegar og smáfarartækja hins vegar; t.d. yrði engin sérregla um að keyra megi smáfarartæki á götu með hámarkshraða ekki meira en 30 km/klst. heldur myndu smáfarartæki einfaldlega fylgja núgildandi reglum um létt bifhjól í flokki I.

Til vara.

Til vara, ef haldið verður í það almennt að hafa ákvæði um smáfarartæki í greinum um hjólreiðar (42., 43. og 44. grein), leggur LHM þá til að bætt verði við eftirfarandi texta í 43. gr.:

„Ef hjólastígur er samhliða göngustíg er einungis heimilt að aka smáfarartæki á hjólastígnum.“

Þetta er samhljóða reglu um létt bifhjól í flokki I.

Athugið að fyrir reiðhjól og hjólreiðamenn gildir hins vegar eftirfarandi regla

„Ef hjólastígur er samhliða gangstétt eða göngustíg skal að jafnaði notast við hjólastíginn. Þó er í slíkum tilvikum heimilt að hjóla á gangstétt eða göngustíg ef fyllsta öryggis er gætt og ekki er hjólað hraðar en sem nemur eðlilegum gönguhraða.“

Þessi regla er m.a. svo að börn geti hjólað á lægri hraða og foreldrar þeirra með þeim. Gæta verður þess að fella ekki þessa reglu úr gildi.

Ennfremur þá til vara leggur LHM til að textinn

„Á vegi þar sem leyfður hámarkshraði er ekki meiri en 30 km á klst. er ökumanni heimilt að aka smáfarartæki.“

verði a.m.k. svohljóðandi

„Á vegi þar sem leyfður hámarkshraði er ekki meiri en 40 km á klst. er ökumanni heimilt að aka smáfarartæki.“

en helst að engin slík takmörk verði sett, ekkert fremur en að það eru engin takmörk fyrir létt bifhjól í flokki I.

Notkun smáfarartækja undir áhrifum áfengis.

LHM hefur ekki talið rétt að setja stífar reglur um notkun smáfarartækja undir áhrifum áfengis. Með frumvarpinu er lagt til að áfengismörkin verði 0,50‰ fyrir ökumenn þessara farartækja og að hámarksrefsing fyrir brot verði um tveggja ára fangelsi. Í umsögn[2] LHM um skýrslu nefndar um smáfarartæki mæltu samtökin með að frekar yrði farin sú leið að takmarka útleigu á hjólum á ákveðnum svæðum á ákveðnum tímum, t.d. með að hætta útleigu þeirra í miðborginni um helgar frá kl. 21 til kl. 6. Í því fælust betri forvirkar aðgerðir heldur en að sekta fólk eftir á þegar slys hefur þegar orðið.

Það er hætt við því að lögregla muni ekki sinna þessu verkefni í forvarnarskyni heldur munu áhrifin fyrst og fremst verða að lögregla muni sekta þá ökumenn sem hafa lent í slysi undir áhrifum á rafhlaupahjóli. Það gæti jafnvel orðið til þess að fólk muni forðast það að kalla á aðstoð þegar það lendir í slysum til að forðast sektargreiðslur.

Útleiga á rafhlaupahjólum þegar fólk er vitstola af áfengisneyslu má líkja við að það væri boðið upp á að fá sér bílaleigubíl úr bænum undir áhrifum áfengis. Það ástand mun áfram ríkja þótt sektir séu lagðar við akstri smáfarartækja við 0,50‰ áfengismörk.

Sá sem ekur smáfarartæki með 250W mótor undir áhrifum er reyndar fyrst og fremst hættulegur sjálfum sér, en ekki öðrum; ólíkt ökumanni á tveggja tonna bíl með 100.000W mótor.

Bann við breytingu á hraðastýringu.

LHM er mjög hlynnt þeirri breytingu að óheimilt verði að breyta hraðastýringu á  reiðhjóli búnu rafknúinni hjálparvél, smáfarartæki eða léttu bifhjóli í flokki I svo að mögulegur hámarkshraði þess með vélarafli verði ekki meiri en 25 km á klst og einnig léttum bifhjólum í flokki II við 45 km á klst 

Athygli vekur að áfram verður heimilt að selja bíla sem komast langt umfram hámarkshraða á vegum landsins. Er ekki komin tími til að hafa sjálfvirka hraðastýringu á hættulegustu ökutækjunum á vegum landsins?

Lagning smáfarartækja þar sem þau valda hættu og óþægindum.

LHM leggur áherslu á að þetta frumvarp nær ekki utan um þann alvarlega vanda sem tengist lagningu á deilirafskútum í þéttbýli. Skýrt þarf að vera hvar og hvernig eigi að ganga frá smáfarartækjum, sérstaklega svokölluðum deilirafskútum. Rafskútum frá leigum er illa lagt á stígum og gangstéttum um allt höfuðborgarsvæðið[3] og getur stafað hætta af þeim fyrir þá sem hjóla um stígana[4]

  1. LHM leggur til að sett verði í lög ákvæði um lagningu smáfarartækja og að ekki megi skilja þau eftir þar sem þau geti valdið hættu á stígum. Rafskútur geta auðveldlega dottið í vindi og því þarf að leggja þeim utan stíga í nægilegri fjarlægð.
  2. Það þarf að einfalda það ferli þegar leiga bregst ekki við ábendingum um illa lagðar rafskútur með nógu skjótum hætti. Reykjavíkurborg hefur borið stjórnsýslulög fyrir sig og sagt í svörum til notenda stíga og gangstétta sem sendir kvörtun til borgarinnar að:
    „[...] við höfum áframsent hana á þjónustuaðilann en bendum á að skv. stjórnsýslulögum ber okkur að gæta meðalhófs í aðgerðum og því er okkur ekki kleift að bregðast við fyrr en fullreynt er að ná sama markmiði "með öðru og vægara móti". Ef umrædd hlaupahjól verða ekki fjarlægð má endilega senda okkur ítrekun.“
    Hér þarf að skerpa á ábyrgð veghaldara; að þrátt fyrir afnotaleyfi frá sveitarfélagi til smáfarartækjaleigu um afnot af landi sveitarfélagsins fyrir stöðvarlausa leigu að þá sé veghaldari engu að síður áfram ábyrgur fyrir hindrunum á akbrautum og stígum (svo sem rafskútum sem hafa verið skildar eftir) og beri að fjarlægja þær hindranir, og geti ekki framselt þá ábyrgð með þessum hætti. En einnig þarf að láta veghaldara hafa verkfæri til að tækla þetta vandamál með einföldum og skýrum hætti, sem veghaldarar virðast ekki hafa í dag.
  3. Til viðbótar mætti gera kröfu um það að í verklagsreglum sveitarfélaganna fyrir rafskútuleigur verði sett skýrari skilyrði um að rafskútum eigi að leggja a.m.k. 2 metrum frá stíg (svo að rafskúta geti dottið en samt verið utan stígsins) eða að það verði að skilgreina tilteknar skilastöðvar með rafrænum girðingum (þar sem notast er við GPS-staðsetningar leiguhjóla) þar sem skilja verður þessi tæki eftir en ella að borga hátt aukagjald. Einnig að skilgreina verði ákveðna kafla af (fjölförnum) hjólastígum þar sem ekki má skilja þær eftir og leigu beri að fjarlægja þær við fyrsta tækifæri ef leigutaki brýtur reglurnar.

Því leggur LHM til að á eftir 3. mgr. 28. gr. bætist við ný 4. málsgrein svohljóðandi (og breytist röð málsgreina til samræmis):

„Eigi má leggja smáfarartæki, léttu bifhjóli í flokki I eða reiðhjóli á stöðum þar sem þau hindra umferð og skapa hættu, svo sem á hjólastígum, göngustígum, á eða við gangbrautir, á eða við gönguþveranir, á miðjum gangstéttum eða á öðrum svipuðum stöðum.“

Athygli er vakin á því að þessi tillaga hér um skýrt stöðubann er óháð öllum tillögum hér að ofan í fyrri köflum þessarar umsagnar því hún myndi gilda jafnt um öll þessi farartæki, hvort svo sem smáfarartæki yrðu frekar flokkuð sem að vera svipuð reiðhjólum eða vera svipuð léttum bifhjólum í flokki I.

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.