Garðabær skipulag: https://skipulagsgatt.is/issues/2024/1393
Reykjavík 07. janúar 2026
Miðbær Garðabæjar - Deiliskipulagsbreyting - Svæði I og II
Hér á eftir fara athugasemdir Landssamtaka hjólreiðamanna (LHM) við skipulagstillögu í auglýsingu.
Tillagan nær til lóðanna Garðatorg 1 (Bónus og Hönnunarsafn), Garðatorg 5A (yfirbyggð göngugata) og Hrísmóar 19 (bílastæðalóð). Breytingin nær einnig til svæðis utan lóða en innan deiliskipulagsmarka norðan við Garðatorg 2 og meðfram Vífilsstaðavegi upp að Kirkjulundi.
Tillagan gerir ráð fyrir um 40-45 íbúðum í 5 hæða nýbyggingu í norðurhluta byggingarreits Garðatorgs 1 og á suðurhluta byggingareits er gert ráð fyrir 4 hæða atvinnuhúsnæði. Byggingarreit er bætt við fyrir stækkun bílakjallara á Garðatorgi og bílakjallara á bílastæðalóðinni Hrísmóar 19. Einnig er gert ráð fyrir fjölgun fermetra á lóð 5a (H), þar sem nú verður gert ráð fyrir kjallara og 2. hæð að hluta. Gert ráð fyrir nýjum bílastæðum meðfram Vífilsstaðavegi upp að Kirkjulundi.
Athugasemdir LHM
Það virðist gert ráð fyrir blönduðum stofnstíg fyrir hjólandi og gangandi samsíða Vífilstaðavegi. Það hefði verið gaman að sjá tillögu um aðskilnað hjólandi og gangandi á þeim stíg samfara þessu skipulagi. Það virðist gert ráð fyrir tengistíg samsíða Bæjarhrauni. Það hefði sömuleiðis verið gaman að sjá tillögu um endurbætur og breikkun tengistígs í Bæjarhrauni samfara þessu skipulagi. Núverandi stígur þar er 2 m breiður og er ófullnægjandi sem blandaður stígur fyrir gangandi og hjólandi.
Engin raunveruleg umfjöllun er um hjólandi eða gangandi í tillögunni sem er ófullnægjandi. Orðið ganga kemur 2 sinnum fyrir en hjól aldrei (Tafla 1). Umfjöllun ætti að vera um alla samgöngumáta í skipulaginu og samgöngumat lagt fram með því, m.a. ætti að grein fyrir staðsetningu og fjölda hjólastæða í skipulaginu.
Lóð C er kallað miðbæjartorg en virðist í raun bara vera bílastæði. Til að torgið standi undir nafni hefði þurft að gera ráð fyrir stærra svæði undir mannlífi og hafa eitthvað sem einkennir og undirbyggir mannvist. Til dæmis opið svæði, gróður, bekki, listaverk, leiktæki eða annað.
Almennt virðist miðbærinn ekki ná að standa undir nafni vegna of mikillar áherslu á bílastæði og aðkomu bíla. Miðbæir eiga að einkennast af fjölbreyttum samgöngumátum og jafnri aðstöðu ólíkra samgöngumáta og sumir myndu jafnvel segja að bíllinn ætti að vera aukaleikari en ekki aðalleikari. Bílar og bílastæði mega ekki bera miðbæi ofurliði eins og hér virðist því miður lagt upp með. Skipulagið einkennist af léttari útgáfu af „strip mall“ skipulagi sem þekkist frá bílmiðuðum samfélögum og auðvitað Litlatúni og Kauptúni í Garðabæ.
Bílastæðaskipulag á miðsvæði ætti að tryggja sem besta samnýtingu stæða milli notendahópa, þ.e. íbúa, starfsmanna og þeirra sem leita þjónustu í miðbæinn. Hér virðist lagt upp með þveröfuga nálgun. Tillagan aðgreinir notkun stæða milli notendahópa og samnýting stæða verður lítil sem engin. Það þarf því að byggja mun fleiri bílastæði en ella þyrfti ef bílastæðaskipulagið tryggði góða samnýtingu. Til að ná fram góðri nýtingu stæða væri skynsamlegt að hafa sem hæst hlutfall stæða laus fyrir alla notendur og gjaldskyldu í öllum lausum stæðum. Ýmist með langtímaleigu (vikur, mánuðir, ár) eða skammtímaleigu (dagar, klst.). Ef stæði eru föst í einkaeigu eða lokaðri langtímaleigu, sem aðrir geta þá ekki nýtt, verður samnýting að sama skapi minni og þarf að byggja fleiri stæði. Lykilatriði fyrir heilbrigðar samgöngur er að notendur stæðanna greiði fyrir afnot og að þau séu sem minnst niðurgreidd af samfélaginu.
Gera þarf betur grein fyrir endanlegum fjölda bílastæða sem ætlunin er að byggja á skipulagssvæðinu.
Tafla 1. Notkun hugtakanna bíl, hjól og ganga í skipulaginu.

Virðingarfyllst
Árni Davíðsson, stjórnarmaður LHM