Kópavogsbær
Digranesvegi 1, 200 K.
Skipulagsgátt mál 1514/2025 - Kársnesstígur á sunnanverðu Kársnesi
Kópavogi, 22. janúar 2026
Umsögn um:
Kársnesstígur á sunnanverðu Kársnesi
Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) hafa skoðað vinnslutillögu í kynningu um Kársnesstíg, aðgreinda göngu- og hjólastíga á sunnanverðu Kársnesi:
Í kynningu kemur fram að viðfangsefni deiliskipulagsins eru endurbætur á Kársnesstíg á sunnanverðu Kársnesi með áherslu á að bæta aðgengi og öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Í því samhengi er lagt til að komið verði fyrir aðgreindum hjólastíg sem stuðlar að skýrari aðgreiningu ferðamáta og eykur öryggi allra vegfarenda. Skipulagssvæðið nær yfir Kársnesstíg og nærliggjandi svæði á milli Bakkabrautar og Urðarbrautar.
LHM er hlynnt framlagðri vinnslutillögu sem og þeim hugmyndum er hún byggir á. Með stígnum er öryggi allra vegfarendahópa bætt og umferð hjólandi & gangandi samtímis gerð greiðari, skilvirkari, öruggari og vistlegri.
Kársnesstígur er mikilvægur stofnstígur hjólreiða á höfuðborgarsvæðinu, tenging á milli Þinghóls annars vegar og Öldu, brúar yfir Fossvog, hins vegar. Endurbætur á Kársnesstíg er nauðsynleg framkvæmd til að Alda nýtist sem skyldi. Tvöföldun stígsins kemur í veg fyrir núning milli vegfarendahópa og eykur öryggi með því að skapa gott pláss fyrir alla hópa sem nýta sér Kársnesstíg til samgangna og til útivistar.
Tengsl vinnslutillögu við hönnunarleiðbeiningar:
LHM gerir að sjálfsögðu ráð fyrir því að leiðbeiningum um hönnun fyrir hjólreiðar [1], sem Kópavogur er aðili að ásamt öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðinni, verði ítarlega fylgt við hönnun og gerð stígsins, en vill sérstaklega vekja athygli á nokkrum atriðum.
Benda má á að stígar eiga að vera sléttir, beinir, greiðir og án hindrana. LHM tekur undir athugasemdir í minnisblöðum sem tillögunni fylgja, t.d. „ekki er ráðlagt að gera yfirborð ójafnt en það getur skapað fallhættu sér í lagi fyrir þau sem ferðast á rafhlaupahjólum“ (Úrbana og Pláss) og „það getur verið varhugavert fyrir gangandi og fatlaða einstaklinga að ganga og ferðast um á ójöfnu yfirborði“ (Vegagerðin). Í hönnunarleiðbeiningum er sérstaklega tiltekið að „yfirborð hjólaleiða á að vera slétt, a.m.k. jafngott og yfirborð næstu götu“. Ýmsar óraunhæfar hugmyndir um að hindra för hjólandi um stíginn með ýmiskonar tálmunum sem draga úr öryggi hjólandi koma ekki til greina; engar slíkar lausnir mega vera á kostnað öryggis hjólandi.
Það kemur vel til greina að minna á tillitssemi í umferðinni, eins og hefur verið gert á öðrum hjólastígum á höfuðborgarsvæðinu með góðum árangri, með stamri málningu sem er ekki upphleypt; sjá mynd hér fyrir neðan úr hönnunarleiðbeiningum:

Eins kemur vel til greina að nota þær merkingar sem eru ætlaðar til að stýra umferð samkvæmt umferðarlögum eða reglugerð um umferðarmerki. Í því samhengi vill LHM minnast á að sjónlínur þurfa líka að vera beinar og nægileg stígsýn þar sem stígur er þveraður til að fyrirbyggja slys. Þar þarf lýsing einnig að vera góð.
Samspil vistgötu og hjólastígs:
LHM vill leggja til breytingar við vesturenda Sunnubrautar:
1) Að gert verði ráð fyrir að vistgata haldi sér frá endanum á Sunnubraut að dælustöð við Sunnubraut 58 (bleik lína). Óþarfi virðist vera að gera ráð fyrir ofhönnun með steinum og stöplum þar og umferð þjónustubíla á hjólastíg. Einnig er betra að hafa greiða leið frá Sunnubraut fyrir hjólandi inn á og út af stígnum.
2) Óþarfi virðist vera að gera ráð fyrir hlykk á hjólastíg á þessum stað á mót við Sunnubraut 52 og að hafa tvo áningarstaði. Betra virðist vera að hafa einn áningarstað og láta hjólastíg fylgja legu göngustígs (ljósblá lína).

Tengsl við aðliggjandi svæði:
LHM gerir ráð fyrir því að austan við deiliskipulagssvæðið, milli Urðarbrautar og Þinghóls, verði núverandi hjóla- og göngustígum víxlað til samræmis við þá stefnu að hafa gangandi nær sjónum og hjólandi fjær sjónum. Við það tækifæri verði allir stígar sem og öll stígamót uppfærð á þeim kafla í samræmi við leiðbeiningar um hönnun fyrir hjólreiðar, þ.m.t. stígamót við Kópavogshálsstíg við undirgöng undir Hafnarfjarðarveg.
Slysahætta er hverfandi:
Í umsögnum sumra um vinnslutillöguna er dreginn upp sú mynd að umferð um Kársnesstíg verði sambærileg við þungaumferð tugþúsunda bíla á Hafnarfjarðarvegi sem er ekki raunhæfur samanburður. Hugsanlega er fólk að slá saman hugtökunum stofnstígur og stofnbraut en þegar borinn er saman hraði, þungi, hávaði, hætta og fjöldi ökutækja, er þetta allt algjörlega ósambærilegt.
LMH vill benda á að þar sem Kársnesstígur er stofnstígur hjólreiða er skýrt í hönnunarleiðbeiningum fyrir hjólreiðar að miða eigi við 30 km/klst hönnunarhraða (gildir bæði um stofn- og tengileiðir innan þéttbýlis), sem er sami hraði og almennt er í húsagötum og þykir tilhlýðilegur & mjög öruggur. Allir hjólastígar á höfuðborgarsvæðinu eru hannaðir með þetta viðmið í huga í samræmi við hönnunarleiðbeiningar. Þar sem hjóla- og göngustígar liggja samhliða eða nálægt hvorum öðrum á höfuðborgarsvæðinu eru engin vandamál. Hví ætti það að vera öðruvísi á Kársnesstíg?
LHM vill vekja athygli á því að mjög svipaður hjólastígur hefur verið í mörg ár undir Öskjuhlíð og í gegnum Fossvogsdal og fer hann meira að segja samhliða göngustíg framhjá Fossvogsskóla, þar sem eru daglega mörg börn á öllum aldri. Skv. slysatölum Samgöngustofu hefur orðið samtals eitt samstuð á þeim stíg á árabilinu 2014‒2024 og var það slys án meiðsla. Til samanburðar hafa á sama tíma orðið þúsundir slysa annars staðar þar sem bílstjórar keyrðu á gangandi, hjólandi, aðra bílstjóra, og á dauða hluti [2]:

LHM skoðaði hjólastíga í Kópavogi og núverandi Kársnesstíg á korti Samgöngustofu 2014‒2024 og fann einungis örfá atvik og öll voru „fall af reiðhjóli“. Engin ástæða er til að rengja þessa skráningu svo LHM viti til og undirritaður kom meira að segja að einu af þeim atvikum sem þar eru skráð (fall af reiðhjóli 6. maí 2023 nálægt Lindakirkju) og getur staðfest að þar er rétt með farið.
LHM hvetur Kópavogsbæ eindregið til að vinna áfram endanlega deiliskipulagstillögu, byggt á þeirri vinnslutillögu sem fjallað er um hér, í ítarlegu samræmi við hönnunarleiðbeiningar fyrir hjólreiðar og bestu opinberu gögn sem byggja á áratuga reynslu.
Aðrar leiðir og umferðarþungi:
Í umsögnum ýmissa annarra um vinnslutillöguna er lagt til að hjólastígur milli Þinghóls og Öldu verði lagður um Kópavogsbraut. LHM telur að það komi ekki í stað endurbóta á Kársnesstíg vegna óhagstæðrar hæðarlegu og þeirrar staðreyndar að flestir sem hjóla þessa leið myndu velja Kársnesstíg hvort sem væri vegna hæðarlegunnar. Slík framkvæmd myndi ekki draga úr núningi milli gangandi og hjólandi eða bæta öryggi á stignum. Í skoðanakönnun sem LHM stóð fyrir í hópnum Samgönguhjólreiðar á Facebook árið 2021 sögðu 98% þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar „Hvaða leið á stígurinn að liggja til að tengja umferð frá sunnan- og austanverðum Kópavogi, Garðabæ, og Hafnarfirði að brú yfir Fossvog?“ að stígurinn ætti að liggja eins og leið 1 á mynd hér að neðan: „Beina leið meðfram ströndinni á sunnanverðu Kársnesi án hækkunar.“ [3]

Auðvelt er að skoða meintan umferðarvanda með því að áætla umferð um Kársnesstíg þegar hann er tilbúinn og þegar Alda hefur verið byggð. Ef gert er ráð fyrir að 600 manns hjóli Kársnesstíg á hverjum virkum degi og að sú umferð sé 200 manns kvölds og morgna, það er 200 frá kl. 7-9 og 200 frá 15-18, verður hámarksumferð að morgni milli kl. 7-9 um 1,7 hjólandi á mínútu [4]. Á þessum tíma eru fáir að njóta útivistar á stígnum. Umferðarþunginn á öðrum tímum væri að jafnaði minni en þetta. Ef umferðin tvöfaldaðist væri það 3,3 hjólandi á mínútu á milli kl. 7-9. Það er ljóst að ef þetta er óviðunandi umferð þá ætti að loka hverri einustu götu í Kópavogi því umferð bíla er í flestum tilvikum mun meiri og að sama skapi mun hættulegri. Að mati LHM er þessi „umferðarþungi“ ekki líklegur til að valda neinum vanda og þegar stígurinn er kominn munu allir gleyma þessari umræðu á nokkrum vikum.
Virðingarfyllst
f.h. stjórnar Landssamtaka hjólreiðamanna
Erlendur S. Þorsteinsson
formaður
[2] https://www.map.is/samgongustofa/
[3] https://lhm.is/lhm/skjol/1348-hjolastigur-karsnes
[4] Til samanburðar hjóluðu 367/dag framhjá teljara hjá N1 í Fossvogsdal í október 2025