Suðurgata tekur grænum breytingum

nemahjolandiSuðurgata verður einstefnugata fyrir akandi umferð til suðurs frá Kirkjugarðsstíg að Skothúsvegi en tvístefnugata fyrir hjólandi umferð. Þetta var samþykkti í umhverfis- og samgönguráði í vikunni. „Við vonum að þessi breyting bæti aðstæður fyrir gangandi, hjólandi og almenningssamgöngur,“ segir Karl Sigurðsson formaður ráðsins og að einnig muni um leið draga úr umferðarhraða og hávaða.

Umhverfis- og samgöngusviði var falið að útfæra tillöguna með þeim orðum að hefta ekki gangandi umferð. Hjólandi umferð mun fara af gangstéttum yfir á götuna og veita gangandi um leið betra rými. Gatan er þröng um þessar mundir og vandasöm fyrir strætisvagna. Akstur stórra bifreiða er nú þegar bönnuð til norðurs.  30 km hámarkshraði er á þessum kafla Suðurgötunnar.

Samþykktin er liður í því að jafna aðstæður milli ferðavenja í Reykjavík og auðga borgina með fjölbreyttum samgöngum og mannlífi.

Tengill:

Suðurgata - skýringarmynd

Bókanir á fundinum

31. ágúst 2010
Bókanir vegna Einstefna Suðurgötu - göngu- og hjólreiðastígur.

Bókun VG

Suðurgatan er aðeins fær fyrir gangandi , að vestanverðu. Gönguleið á austanverðri götunni yrði án vafa ein sú fegursta í Reykjavík og það því löngu orðið tímabært að gangandi vegfarendur fái aftur að njóta hennar. Lausnin gæti verið í samræmi við tillögu sem samþykkt var fyrr, á þessum fundi um„sared space“ á Lækjargötu.

Bókun D lista

Fulltrúar D lista í umhverfis - og samgönguráði styðja tillögu um að Suðurgata verði einstefnugata en leggja áherslu á að lokaútfærsla
tillögunnar verði lögð fyrir ráðið.

Bókun SÆD

Fulltrúar SÆD vilja taka fram að tillagan sem lögð var fram heftir á engan hátt aðgang gangandi um Suðurgötu. Aukinheldur skal benda á að með því að stýra umferð hjólandi af gangstétt yfir á sérstaka hjólastíga þá er aðgengi gangandi bætt.

Frétt af vef Reykjavíkurborgar 2. september 2010.

nemahjolandi-sudurgata