Bréf LHM til Hagstofunnar vegna upplýsinga um hjólreiðar

LHM skrifað Hagstofunni bréf 3. desember í kjölfar á fyrirspurn frá European Cyclists Federation (www.ecf.com) þar sem spurt var um hjólreiðaeign og hjólreiðanotkun á Íslandi. Hagstofan svaraði þessu erindi greiðlega. Bréf LHM er hér að neðan ásamt svari Hagstofunnar og öðru bréfi LHM til Hagstofunnar í kjölfarið með fylgiskjali.

 


Mál: Upplýsingar um reiðhjól, hjólreiðar og umferðarslys.

Nýverið barst Landssamtökum hjólreiðamanna (LHM) fyrirspurn frá
samtökum Evrópskra hjólreiðafélaga (European Cyclists Federation
ECF.com), sem LHM er aðili að, um ýmis atriði varðandi hjólreiðar á
Íslandi. Meðal annars var spurt um reiðhjólaáætlanir af hendi
stjórnvalda, markmið stjórnvalda um hjólreiðar, hlutfall ferða sem farnar
eru á reiðhjóli, meðalvegalengd sem hver landsmaður hjólar á ári og
reiðhjólaeign á heimilum landsmanna.

Með hliðsjón af hlutverki Hagstofu Íslands óska Landssamtökin hér með
eftir því að Hagstofa Íslands safni og miðli upplýsingum um
reiðhjólaeign og hjólreiðar landsmanna. Nánar tiltekið er óskað eftir því
að eftirfarandi upplýsingum verði safnað og miðlað:

1. Reiðhjólaeign á heimilum landsmanna.

2. Hjólreiðar landsmanna. Það er meðalvegalengd sem hjólað er á ári á
mann og hugsanlega meðalfjöldi ferða á viku/mánuði/ári og
meðaltími á ferð.

3. Hlutfall ferða sem farinn er með reiðhjóli, á einkabíl, með
strætó/almenningssamgöngum eða gangandi í vinnu, skóla, verslun
eða annarra erinda en til beinnar útivistar (modal split).

Jafnframt vill LHM koma að eftirfarandi ábendingum varðandi
upplýsingar um umferðarslys sem settar eru fram af Hagstofunni.

1. Betra væri að aðgreina látna og slasaða í vegfarendahópum heldur en
að telja þá saman því það gefur mikilvægar upplýsingar um
alvarleika slysanna. Þessar upplýsingar munu vera til hjá
Umferðarstofu.

2. Sömuleiðis væri betra að aðgreina mikið slasaða og lítið slasaða í
vegfarendahópum því það gefur mikilvægar upplýsingar um
alvarleika slysanna eftir vegfarendahópum. Þessar tölur eru til a.m.k.
frá 2006 hjá Umferðarstofu.

3. Núna eru tölur um slasaða og látna birtar sem fjöldi af 100.000
íbúum. Æskilegt væri að safna gögnum til að geta birt tölur um
slasaða og látna einnig á grunni ekinnar/hjólaðrar/genginnar
vegalengdar og einnig á grunni tíma sem eytt er við að
aka/hjóla/ganga.

Ef frekari upplýsinga er óskað má hafa samband við undirritaðan.

Landssamtökin eru ávallt reiðubúinn til samstarfs og samvinnu um öll
mál er varða hag hjólreiðamanna.

Virðingarfyllst
Árni Davíðsson
formaður Landssamtaka hjólreiðamanna

 


1. bréf LHM 3. desember 2010 (pdf 58 kb)

Svar Hagstofunnar 8. desember 2010 (pdf 385 kb)

2. bréf LHM 7. janúar 2011 (pdf 76)

Fylgiskjal með 2. bréfi LHM (pdf 29 kb) (Svar LHM til ECF um hjólreiðar á Íslandi)

hagstofa_islands_logo