Leiðbeiningar um örugga umferð hjólandi

GrensasLHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr  núníngi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.

Kvartað hefur verið yfir tillitsleysi hjólandi á stígunum og eru það oft réttmætar ábendingar. Hjólandi eru gestir á blönduðum stígum og gangstéttum og gestir eiga að sjálfsögðu að sýna kurteisi. Sömuleiðis hafa bílstjórar kvartað vegna tillitsleysis hjólandi sem sýna ekki næga aðgát þegar þeir fara yfir götur á gangbrautum og öðrum þverunarstöðum yfir götur. Hjólandi verða auðvitað að sýna fyllstu aðgát  þegar þeir fara yfir götu og gæta að annari umferð og ekki fara yfir fyrr en öruggt er að bílstjóri hefur numið staðar. Hjólandi geta líka í meira mæli notað göturnar en nú er gert því flestar götur í íbúðahverfum eru með lítilli bílaumferð og hægur vandi fyrir fullorðið fólk að hjóla þar.

Umferð hjólandi hefur vaxið umtalsvert undanfarin ár. Kannanir benda til þess að hlutfall íbúa á höfuðborgarsvæðinu sem hjólar í vinnu og skóla á haustmánuðum hafi aukist frá um 2 % 2008 í um 5% 2011. Fjöldin hefur því ríflega 2-3 faldast á fáum árum. Umferð hjólandi er sjáanlega miklu meiri en áður var. Meðan heilsu- og hvatningarátakið “Hjólað í vinnuna” stendur yfir er fjöldinn en meiri. Sveitarfélögin og ríkisvaldið verða að bregðast við auknum fjölda hjólandi og ráðast þarf í gerð sérstakra stíga og reina fyrir hjólandi til að tryggja þeim greiða, fljótlega og örugga leið milli sveitarfélaga og hverfa. Þar sem umferð réttlætir ekki gerð sérstakra mannvirkja fyrir hjólandi er mikilvægt að lagfæra núverandi stíga. Þá þarf að breikka og lagfæra á þeim hættustaði svo sem blindhorn og blindbeygjur, fjarlægja hlið og grjóthnullunga, laga yfirborð, bæta lýsingu þar sem hún er léleg og gera leið hjólandi hindrunarlausa yfir gatnamót. Þetta eru mikilvægar ráðstafanir til að tryggja öryggi allra og greiða umferð þegar umferð gangandi og hjólandi vex.

Öryggi er þó ekki bara aðbúnaður heldur einnig atferli. Við þurfum öll að leggjast á eitt að sýna tillitsemi og kurteisi í umferðinni og gera það sem í okkar valdi stendur til að umferðin á stígum og götum gangi slysalaust fyrir sig. Munum að “Hjólað í vinnuna” er ekki keppni í að vera fljótastur í vinnuna.

Hlutur hjólamenningar í öryggi hjólandi er vanmetinn. Þau lönd þar sem öryggi hjólandi er mest einkennast ekki bara af góðum aðbúnaði hjólandi heldur líka af jöfnum hraða og ríkri hjólamenningu. Reynum að tileinka okkar "góða" hjólamenningu. Verum kurteis og tillitsöm. Hjólum á jöfnum hraða, hægjum vel á okkar þar sem sýn fram á veginn er takmörkuð, notum bjölluna og bjóðum góðan daginn og förum varlega fram hjá gangandi vegfarendum.

Árni Davíðsson
formaður LHM


 

Leiðbeiningarnar eru hér á pdf formi.

Allar ábendingar við leiðbeiningarnar eru vel þegnar. Skila má ábendingum við þær eða annað á póstfang LHM: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.