Má hjóla núna?

Úrsúla Jünemann fjallar um hjólreiðar allan ársins hring: "Hjólreiðar eru heilsubætandi, umhverfisvænar og spara talsverðan pening bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið."

Sunnudaginn 1. mars, 2009 - Aðsent efni, Morgunblaðið {jathumbnail off}

Úrsúla JünemannMá hjóla núna?

Úrsúla Jünemann fjallar um hjólreiðar allan ársins hring

Úrsúla Jünemann

MÁ HJÓLA núna? Ég er ein af þeim sem eru svo heppnir að geta notað reiðhjólið allan ársins hring, hef ennþá heilsu til þess þó að efri árin séu að nálgast. Og ég nota reiðhjólið í flestallar ferðir innanbæjar. Það er nefnilega gaman og hressandi og góð dagleg líkamsrækt. Hjólið mitt er ekki einu sinni á nagladekkjum og er ég alltaf jafn hissa hve margir bílar eru þannig búnir, alveg að óþörfu. Ef ég get farið á venjulegu reiðhjóli þá ætti akandi fólk að geta verið einnig án nagla. Í vetur skildi ég hjólið að vísu eftir heima vegna hálku, en það var bara í 3 skipti hingað til.

Þar sem ég er kennari í grunnskóla fæ ég oft athugasemdir frá nemendum. Algengasti setningin er: „Það má ekki hjóla á götunni!“ Margir foreldrar brýna örugglega fyrir ungum börnum sínum að hjóla á gangstéttunum. Það er líka viðeigandi á meðan börnin hafa ekki alveg vald á hjólinu og þekkja ekki umferðarreglurnar. Það væri betra að börnin fengju réttu skilaboðin, nefnilega að reiðhjól eru viðurkennd samgöngutæki og fullorðið fólk sem kann allar reglurnar má hjóla á götunum. Og ég trúði því ekki, en það er ennþá fólk til sem heldur að það eigi að hjóla á móti umferðinni. Vonandi kennir enginn börnunum slíkt. Þetta er stórhættulegt!

Þegar það haustar og dagarnir styttast þá heyri ég oft: „Það má ekki hjóla núna!“ Margir foreldrar segja börnunum þetta þegar þeir setja reiðhjólin í geymslu á veturna. Það er skiljanlegt á meðan reiðhjólið er ekki með viðeigandi búnað, nefnilega ljós bæði framan og aftan á, helst sterk blikkandi ljós ásamt glitmerki á teinunum. Og ekki er verra að vera í ljósum fötum og með endurskinsmerki. Þannig útbúinn mælir ekkert á móti því að maður hjóli núna.

„Það má ekki hjóla í snjónum!“ sagði einn stubbur við mig í gær. Auðvitað þarf maður að vera öruggur á hjóli og tileinka sér smá tækni í snjónum. Hér gildir það sama og á bíl að aka/hjóla miðað við aðstæður. Reiðhjólið er að verða vinsæll kostur á stuttum vegalengdum og sífellt fleiri nota þennan skemmtilega ferðamáta. Vonandi munum við reiðhjólamenn fá okkar skerf í gatnagerðinni: stíga eða reinar meðfram öllum helstu umferðargötunum og ekki síst stofnbrautunum milli bæjarfélaganna. Á þjóðvegunum ætti að vera vegaöxl sem hægt er að hjóla á án þess að setja líf sitt í hættu. Hjólreiðar myndu aukast talsvert ef aðstæður væru viðeigandi. Það stunda jú svo margir sund vegna þess að alls staðar er aðgengi að góðum sundlaugum hér á landi. Krefjumst úrbóta í málum hjólreiðamanna. Hjólreiðar eru heilsubætandi, umhverfisvænar og spara talsverðan pening bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið. Þannig mætti spara talsverðar upphæðir sem færu annars í bílastæði og fleiri umferðarmannvirki.

Höfundur er kennari.