Hjólreiðar og krabbamein

Í fyrra greindi afrekshjólreiðamaðurinn Ivan Basso frá því að hann hefði greinst með krabbamein í eistum en Lance Armstrong greindist einnig með það árið 1996. Í kjölfar þess að tveir þekktir afrekshjólreiðamenn úr Tour de France veiktust höfðu menn eðlilega áhyggjur af því að hjólreiðar væri áhættuþáttur. Svo reyndist ekki vera[i]. Aldur mannanna hafði meira að segja. Krabbamein í eistum er sjaldgæfur sjúkdómur sem greinist oftast hjá körlum á aldrinum 15 til 34 ára og hægt er að lækna flestar gerðir krabbameins í eistum jafnvel þó það greinist á háu stigi.

Í nýlegri breskri rannsókn[ii] sem var gerð á 5200 hjólreiðamönnum kom í ljós að karlmenn á sextugsaldri sem hjóluðu níu tíma eða meira á viku væru allt að fimm sinnum líklegri til að greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli. Hins vegar fundust engin tengsl við ófrjósemi eða stinningarvanda. Rannsakendurnir sögðu að fyrir þá 2000 karlmenn, 50 ára eða eldri, væri þetta þó ekki óyggjandi sönnun um að hjólreiðar yllu krabbameini í blöðruhálskirtli. Niðurstöðurnar komu skýrsluhöfundum á óvart og hugsanleg skýring gæti verið að eldri menn sem hjóluðu mikið hefðu sterkari heilsuvitund og væru þ.a.l. líklegri til að láta greina sig. Þrátt fyrir það virtust þeir ekki fara oftar til heimilislæknis síns. Höfundur rannsóknarinnar læknirinn Mark Hamer benti á að ekki væri um stóran hóp að ræða og þörf væri á frekari rannsóknum. Hann lagði mikla áherslu á að hjólreiðar væru heilsusamlegar og drægju m.a. úr líkum á sykursýki 2, hjartasjúkdómum og heilablóðfalli.

Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) fengu Hanne Bebendorf Scheller verkefnastýru í forvarnardeild dönsku krabbameinssamtakanna til að halda erindi á árlegu hjólaráðstefnunni „Hjólum til framtíðar“ árið 2014[iii]. Hún er í teymi hreyfingar og næringar og hefur einbeitt sér að því að fá fólk til að nota hjól frekar en einkabíl. Danir leggja mikla áherslu á forvarnir gegn krabbameini. Þriðji hver Dani greinist með krabbamein og hægt er að koma í veg fyrir 4 af hverjum 10 tilfellum. Að reykingum undanskildum eru yfirþyngd og hreyfingarleysi helstu áhættuþættir krabbameins í Danmörku. Hægt væri að koma í veg fyrir 5000 tilfelli krabbameins ef allir Danir fylgdu eftir ráðleggingum um hreyfingu og mataræði.

Virkar samgöngur til vinnu er sú stefna sem vinnur helst gegn auknu hreyfingarleysi fólks. Í Danmörku mætti með hjólreiðum koma í veg fyrir 4500 dauðsföll, 100.000 sjúkrahúsinnlagnir og 3,1 miljón veikindadaga. Hreyfingarleysi kostaði danska heilbrigðiskerfið 3 milljónir danskra króna árið 2006. Hjólreiðar bæta heilsuna og danskar rannsóknir hafa sýnt að líkindi snemmbærra dauðsfalla minnka um 30% hjá hjólreiðafólki. Stuttar hjólreiðaferðir draga úr lífsstílssjúkdómum og streitu.

Eitt stærsta krabbameinið tengt hjólreiðum er sú meinsemd í hugum margra að ekki sé hægt að hjóla að vetrarlagi[iv] eða að veðurfarslegar og skipulagslegar aðstæður verði til þess að flestir reiði sig á einkabílinn[v]. Það er mjög auðvelt að hjóla að vetrarlagi, gengur oftast hraðar heldur en á einkabíl á styttri leiðum því það þarf ekki að skafa hjólið og leita að hjólastæði. Uppbygging og þjónusta hjólreiðastígakerfisins fer stöðugt batnandi en er auðvitað ekki lokið. Hjólreiðar spara samfélaginu peninga og einkennileg viðhorf er að berjast gegn uppbyggingu hjólreiða innviða og blanda því við óskyld mál. Það má velta því fyrir sér hvað af eftirtöldu er líklegast að valdi krabbameini; dekkjakurl, gossjálfssalar, sjoppur í íþróttahúsum, hreyfingarleysi barna sem hanga heima í tölvuleikjum í óhófi eða dekkjakurl vegna skutls foreldra barna sinna á æfingar. Vona að þessi grein svari því að einhverju leyti.

Ásbjörn Ólafsson,
formaður Landssamtaka hjólreiðamanna (LHM)



[i] http://www.livescience.com/51538-testicular-cancer-cycling.html

[ii] http://www.dailymail.co.uk/health/article-2684947/Men-cycling-nine-hours-week-six-times-likely-develop-prostate-cancer-study-finds.html

[iii] http://lhm.is/images/stories/2014/hjolum-til-framtidar/erindin/hanne_changinghabits.pdf

[iv] http://vefblod.visir.is/index.php?s=9848&p=210105

[v] http://vefblod.visir.is/index.php?s=9842&p=209991

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.