Þjóðin úti að aka

{japopup type="iframe" content=http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=143146 width="1000" height="600" }Grein sem birtist í Velvakanda Morgunblaðsins 22. júní, 1994{/japopup}

Þjóðin úti að aka

Eflaust áttu margir hamingjuríka þjóðhátíð í sínum ástsælu bílum. En svo eru það aðrir sem vildu frekar hafa notið þjóðhátíðar á Þingvöllum en gátu ekki vegna þess að þeir tóku þá röngu ákvörðun að fara á sínum einkabíl. Margir voru í bílum sínum 5­10 klukkustundir og þrátt fyrir það komust einhverjir alls ekki á leiðarenda og urðu af hátíðarhöldunum á Þingvöllum. Það fólk sem hírðist í bílum og komst hvergi í umferðaröngþveiti, kennir lélegri skipulagningu um og skellir skuldinni á þjóðhátíðarnefnd. Vandamálið er hinsvegar, að fólk fjölmennti á sínum einkabílum. Fatlaðir og aldraðir eru í raun þeir einu sem hefðu átt að koma í bílum, aðrir að notfæra sér langferðabíla og almenningsvagna. Eðlilegast hefði verið að banna almenna bílaumferð. Ein rúta tekur 50­70 manns sem kemur í stað 20­30 bíla og ef fólk hefði skilið bílinn sinn eftir heima og farið með öðrum í rútum þá hefði aldrei komið upp vandamál eins og þessi fyrrnefnda umferðarteppa sem líklega verður greypt í huga fólks frekar en þjóðhátíðin sjálf.

Leiðin frá höfuðborgarsvæðinu til Þingvalla er ekki löng, enda voru margir sem kusu að hjóla hana og mæta til þjóðhátíðar hressir og endurnærðir, tilbúnir að njóta dagsins. Fólk fer misjafnlega hratt yfir og tekur það flesta 2­4 tíma að hjóla frá Reykjavík til Þingvalla. Félagar úr Íslenska Fjallahjólaklúbbnum og annað hjólreiðafólk hjólaði um morguninn úr bænum og notfærði sér að Nesjavallaleiðin var lokuð fyrir almennri bílaumferð. Vanir sem óvanir nutu þess að hjóla saman, sumir klyfjaðir farangri til útilegu um helgina, fjölskyldufólk hjólaði með börn sín í þartilgerðum vögnum sem tengjast aftan í hjólin, allir komust á áfangastað án þess að festast í umferðarteppu! Hjólaeign er orðin almenn og fólk þarf ekki að vera hrætt við að hjóla út fyrir borgina, hver og einn ræður sínum hraða. Það er ekki veðrið eða brekkurnar sem eru óvinur hjólreiðamannsins heldur er það bílaumferðin í öllu sínu veldi eins og á 17. júní. Enginn fýsilegur valkostur var fyrir hjólreiðafólk á heimleið þar sem búið var að opna alla vegi fyrir bílaumferð. Ekki var gert ráð fyrir því að fólk kæmi á hjólum til að halda upp á 50 ára afmæli lýðveldisins og átti hjólreiðafólk öryggi sitt undir misjafnlega tillitssömum bílstjórum sem líklega margir hverjir voru orðnir óþolinmóðir eftir setuna í bílum sínum án þess að hreyfast úr stað.

Mikil þörf er á hjóla- og göngustígum út úr borginni þar sem fólk getur verið óhrætt um líf sitt og limi, fjarri allri bílaumferð. Sem dæmi má nefna lagfæringu gamla Þingvallavegarins sem liggur um Hámel á Mosfellsheiði. Sú leið hefði nýst vel 17. júní sem og aðra daga til hjólreiða og útivistar.

MAGNÚS BERGSSON,

formaður Íslenska fjallahjólaklúbbsins,

Miklubraut 20,

Reykjavík.