Í Facebook færslunni segir: Ég sendi brýningu á Kópavogsbæ að standa nú ekki Reykjavík að baki í þjónustu við hjólandi vegfarendur: (Svar starfsmanns Kópavogsbæjar var eftirfarandi) "Sæll Björn. Þökkum ábendinguna. Verkstjórar Áhaldahússins meta aðstæður vegna snjóa og hálku, hverju sinni og á hvern hátt er brugðist við. Á sama hátt hlýtur að þurfa að meta aðstæður að vetri, ef nota á reiðhjól sem farartæki."
Þessi starfsmaður virðist ekki vita af því að Kópavogsbær hefur sett sér Hjólreiðaáætlun. Hún var kynnt, rædd og samþykkt á fundi bæjarstjórnar þann 12. júní 2012. Í henni koma alls ekki fram þau sjónarmið sem virðast mega lesa úr ummælum viðkomandi starfsmanns. Þvert á móti þá segir í henni að aðstæður eigi ekki að koma í veg fyrir að íbúar bæjarins eigi raunhæft val um hvaða ferðamáta þeir kjósi að notfæra sér. Um snjómokstur og söndun stíga segir að aðalstígar, sem tengja hverfi við skóla og leikskóla séu í forgangi við snjómokstur og söndun, sem og aðalstígar í Kópavogsdal, Fossvogsdal og hringstígur um Kársnes og stefnt er að því að þessar leiðir séu að öllu jöfnu færar um kl. 8.00.
Þeir sem hjóla árið um kring vita að það er lítið mál að hjóla þrátt fyrir vetrarveður ef leiðin er rudd. Þá sjaldan að vetri sem mjög erfitt er að hjóla er líka alveg ófært fyrir bilaumferð vegna ófærðar. Þannig dagur hefur ekki en komið í vetur. Ástæðan fyrir þessari brýningu til Kópavogsbæjar var að vetrarþjónustann á stígum í Reykjavík hefur ýmist verið viðunandi eða mjög góð í vetur og auðvelt að hjóla um borgina á flestum leiðum en Kópavogur staðið sig mun lakar en nágrannasveitarfélagið. Kópavogur þarf einfaldlega að taka sig á og starfa betur eftir þeirri stefnu sem sveitarfélagið hefur sett sér í hjólreiðaáætluninni. Það getur Kópavogur alveg því það hafa komið dagar þar sem mjög vel hefur verið rutt á helstu stígum.
Hjólreiðaáætlun Kópavogs má annars finna hér á vef bæjarins. Í henni kemur margt gott fram eins og sjá má á úrdrættinum hér að neðan:
Úr inngangi
	Til  þess  að  stuðla  að  auknum  hjólreiðum  í  bænum hyggst  Kópavogur  vinna  að  því  að  það  verði  bæði  aðgengilegt  og  öruggt  að  hjóla  í sveitarfélaginu.
	
	Úr Framtíðarsýn    og    stefna    
	Kópavogur stefnir að því að auka veg hjólreiða sem samgöngumáta í sveitarfélaginu þannig að hjólreiðar verði aðgengilegur, skilvirkur og öruggur ferðamáti.
	
	Markmið hjólreiðaáætlunarinnar eru að:  
	Fleiri íbúar Kópavogs , jafnt ungir sem aldnir, noti reiðhjólið sem samgöngutæki.
	Öruggt  og  aðgengilegt  verði  að  hjóla  um Kópavog.
	
	Kópavogur væntir þess að það skili sér í:
	Betri heilsu og meiri lífsgæðum íbúa.
	Betri og líflegri bæjarbrag.
	Betra  umhverfi,  bæði  staðbundið  og  í  víðara samhengi.
	
	Að þessu hyggst bærinn vinna með því að:
	Skapa öruggari aðstæður.
	Vera fyrirmynd.
	Hvetja og umbuna.
	Fræða.
	
	Það er ekki stefna bæjarins að allir séu alltaf á hjóli heldur að aðstæður komi ekki í veg fyrir að íbúar bæjarins eigi raunhæft val um hvaða ferðamáta þeir kjósi að notfæra sér.  
	
	Úr Viðhald og rekstur stíga
	Núverandi  áætlun um  snjómokstur  og söndun  stíga  má  sjá hér  fyrir  neðan  og  á heimasíðu bæjarins. Hún gerir ráð fyrir að aðalstígar, sem tengja  hverfi  við skóla og leikskóla séu í forgangi við snjómokstur og söndun,  sem  og aðalstígar í Kópavogsdal, Fossvogsdal  og  hringstígur  um  Kársnes. Stefnt  er  að  því  að  þessar  leiðir  séu  að  öllu  jöfnu færar  um  kl.  8.00.  Unnið  er  að endurskoðun  áætlunarinnar.  Að  jafnaði  eru  stígar  og  opin svæði sópuð tvisvar á ári. 
 
	    
	  	   
       
					 
					 
					 
					 
					