Stígur frá Bolungarvík í Engidal

Framkvæmdum við Óshlíðargöng lýkur brátt og þá mun gamli Óshlíðarvegurinn verða griðland göngugarpa og hjólreiðafólks. Nú standa einnig yfir framkvæmdir við göngustíg milli Hnífsdals og Ísafjarðar og lýkur þeim í næsta mánuði. Þá mun því liggja göngustígur frá Bolungarvík inn í Hnífsdal, þaðan inn á Ísafjörð, inn í Holtahverfi og alla leið inn í Engidal, því vegurinn inn í Engidal er lítið ekinn eftir að fjörðurinn var þveraður fyrir fjórtán árum síðan. Göngustígurinn er því 20 kílómetrar með tiltölulega fáum götum sem fara þarf yfir. Útivistarfólk á Vestfjörðum fagnar þessu.